Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

virðisaukaskattur o.fl.

952. mál
[16:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að það sé alveg nauðsynlegt að við fylgjumst vel með framkvæmdinni. Ég hef nefnt það hér áður að við þurfum að meta það líka með tilliti til þessara þátta sem við höfum verið að ræða, sem sagt byggingarkostnaðarins. Það er ákveðið áhyggjuefni að á sama tíma og við erum að draga úr endurgreiðslunum þá er auðvitað verðbólga, vextir eru eitthvað að hækka, laun hafa verið að hækka og byggingarkostnaður almennt aðeins að hækka, þannig að það gæti verið eitthvað að draga úr þessari framlegð sem ég hef verið að ræða um hér, og þetta bætist þá við. Þetta eru þættir sem við þurfum að hafa augun á vegna þess að við erum mest upptekin af því að tryggja að það sé eðlilegt framboð á nýju íbúðarhúsnæði.

Varðandi skattamálin er það sömuleiðis þannig að við þurfum að meta það. Við þurfum að muna það líka að í þessu samhengi þá snýst þetta kannski síður um einstaklingana sem fara fram á það að fá reikning og fá síðan á endanum endurgreiðslu. Fyrir Skattinn er ekkert síður mikilvægt að átta sig á því hverjir það eru sem eru að vinna að endurbótum (Forseti hringir.) og byggingu nýs húsnæðis og eiga þess vegna að vera undir eftirliti (Forseti hringir.) í virðisaukaskattskerfinu, hverjir það eru sem eru að gefa út reikningana.