Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra framsöguna. Nú er það þannig að íslensk stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir skeytasendingum frá ESA allt frá árinu 2012. Það vekur auðvitað athygli að ESA hafi beðið í ein 20 ár frá innleiðingu bókunar 35, eins og hún er í dag, með að senda fyrsta bréfið og síðan beðið í tæp 30 ár með að láta til skarar skríða. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hver hefur verið afstaða stjórnvalda hingað til? Hverju hafa stjórnvöld svarað og hvers vegna er þessi stefnubreyting nú? Hafa stjórnvöld haldið uppi vörnum gegn málstað ESA? Það er í rauninni spurningin. Hverjar hafa þær varnir verið og hafa þær þá úrelst sem slíkar, hafa forsendur breyst að einhverju marki? Í ljósi þess að ESA bíður í 20 ár með að senda fyrsta bréfið og tæp 30 með að láta til skarar skríða finnst manni margt benda til þess að þetta snúist kannski að einhverju marki meira um mönnun á kontórnum hjá ESA heldur en hin raunverulegu undirliggjandi efnisatriði hvað varðar áhuga ESA á málinu. En ég bara ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hafa stjórnvöld haldið uppi vörnum gegn málstað ESA hingað til? Hverjar hafa þær varnir verið og hafa þær úrelst síðan þær voru settar fram?