Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vil ég nú segja að í greinargerð með frumvarpinu er farið yfir þróun málsins og dómaframkvæmd á Íslandi sem varpar ljósi á þessa tímalínu að baki frumvarpinu og alla þá vinnu sem hefur verið á undan því, það er vönduð skoðun og mikil vinna sem hefur farið fram undanfarin tíu ár. Hér er ekki verið að flana að neinu og þetta er sú lausn sem ég tel skásta í þeirri stöðu sem við erum í. Dómaframkvæmdin benti fyrst um sinn til að þeir teldu innleiðingu á bókun 35 fullnægjandi og frávikin fara ekki að koma fram fyrr en líða fer á fyrsta áratuginn eftir aldamót og svo höfum við verið í, eins og ég segi, samskiptum. Það má þá gera ráð fyrir því að gagnaðili samningsins hafi verið í góðri trú um að við myndum leita leiða til að standa við það loforð sem gefið var fyrir 30 árum síðan. Ég held um trúverðugleika þess hvort farið verði í samningsbrotamál, að það sé augljóst eða ég tel líkur á því að það verði gert (Forseti hringir.) eftir allt sem á undan er gengið. Og ég bara ítreka aftur: Sé maður þeirrar skoðunar að þessir hlutir eigi að vera í lagi þá hefur maður áhuga á því að finna lausn á málinu. Sé maður þeirrar skoðunar að það sé bara allt í lagi að einstaklingar og lögaðilar (Forseti hringir.) geti ekki gengið að þessum réttindum vísum þá er afstaða þess að fara ekki fram með þetta mál eða ekkert mál skiljanlegri.