Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því og þess vegna ber ég þetta saman, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að það sem við erum að gera hér geri nákvæmlega það sama og sé best til þess fallið að standa vörð um hagsmuni Íslendinga, bæði einstaklinga og lögaðila. Það sem hér er gert nú þegar í íslenskri löggjöf er einmitt til þess að tryggja ákveðna skilvirkni og að hægt sé að standa þannig vörð um til að mynda íslenskt atvinnulíf, eins og með lögum um ársreikninga. Það sama á við að einhverju leyti þegar kemur að því mikla regluverki sem til að mynda fylgir fluginu. Og af því að hv. þingmaður nefndi flugið áðan þá er spurning hversu langt hv. þingmaður myndi vilja ganga í að draga okkur úr samstarfi á Evrópska efnahagssvæðinu er varðar flugið og hvort hv. þingmaður teldi það til hagsbóta fyrir íslenska flugrekendur og Keflavíkurflugvöll og þau miklu umsvif sem þar eru.