Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:23]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég get nú eiginlega ekki stillt mig um annað en að koma upp, úr því að það var vísað til Viðreisnar í ræðu hv. þingmanns. Það er auðvitað áhugavert að sitja hérna úti í sal, halla sér aftur í sætinu og horfa á þetta innanmein Sjálfstæðisflokksins blossa upp í ræðustól, sjá hér Miðflokksmenn allra flokka flykkjast upp í ræðustól — til að gera hvað? Jú, ala á ótta við það sem útlenskt er, grafa undan þeim samningi sem tryggt hefur lífskjör í landinu meira heldur en nokkuð annað. Í þessu tilfelli kom nefnilega upphefðin að utan. Það er bara þannig. Og já, hv. þm., Viðreisn styður þetta mál hæstv. utanríkisráðherra heils hugar og ánægður er ég og sáttur með að frjálslyndari hluti Sjálfstæðisflokksins ætli líka að standa vörð um þennan mikilvæga samning. Ég átta mig á því að það er auðvitað líka öðrum þræði gert, eins og kom fram hjá hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur, til þess að við þurfum ekki að ganga í þetta ógurlega Evrópusamband. Og gott og vel, það er auðvitað afstaða sem vel er hægt að hafa.

Ég er þeirrar skoðunar, rétt eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra hér áðan, að það sé verið að gera allt of mikið úr þessu máli, rétt eins og oft er gert þegar rætt er um alþjóðlegt samstarf. Ég er svolítið þeirrar skoðunar að þegar rætt er um fullveldi og sjálfstæði þá séu það alveg ótrúlega marklaus hugtök ef við viljum ekki nota sjálfstæðið og fullveldið til þess að taka þátt í samstarfi þjóða með réttindum og skyldum til að bæta lífskjör almennings og fyrirtækja og búa til betra samfélag heldur en það væri ella.

Ég ætla líka að fá að varpa fram sömu spurningu og hér hefur verið varpað fram áður. Úr því að EES-samningurinn hefur breyst svona mikið og þanist svona mikið út og nær allt í einu yfir óskyld málefni, líkt og hv. þingmaður nefnir, er hann þá eins og staðan er í dag sáttur við veru okkar í EES? Ég hef nefnilega aldrei skilið hv. þingmann, (Forseti hringir.) samflokksmenn hans og marga aðra Miðflokksmenn í öðrum nokkrum stjórnmálaflokkum (Forseti hringir.) öðruvísi heldur en svo að þeir vilji ekki þetta samstarf.