Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni andsvarið. Ég var nú að reyna að lesa í hverjir Miðflokksmennirnir hefðu verið sem komu hér upp á undan því að mér finnst flestallir þingmenn sem hér hafa tjáð sig að mínu mati hafa verið rangstæðir í málinu. Mögulega var hv. þingmaður að vísa til Orra Páls Jóhannssonar, þingflokksformanns Vinstri grænna, en ég náði því miður ekki að hlusta á öll andsvör hans. Hann sver þetta af sér sé ég hér í hliðarsal þannig að ég lít svo á að ég sé eini Miðflokksmaðurinn sem hafi komið hér upp í þessari umræðu hingað til, því miður. Ég treysti á að fleiri komi hingað upp á eftir og tel reyndar fullvíst að svo verði.

En af því að hv. þingmaður spurði beint út hvort ég væri þeirrar skoðunar að ég vildi undirgangast EES-samninginn ef við værum að taka ákvörðun um það í dag — skildi ég þá ekki spurninguna rétt, hv. þingmaður? Ég held að það gæti bara vel komið til greina. En það sem ég hef saknað og kallað eftir og við raunar óskuðum eftir, Miðflokkurinn, með sérstakri skýrslubeiðni, er greining þar sem farið væri yfir kosti og galla EES-samningsins. Sú beiðni, sem var samþykkt hér samhljóða í þinginu, skilaði sér í þykkri bók nefndar sem Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, fór fyrir, þar sem eingöngu var farið yfir kosti EES-samningsins. Ég eiginlega bara bíð eftir því að annað bindi komi frá þeim ágæta hópi þar sem verður farið yfir ókostina, því að auðvitað eru þeir til staðar en það hefur lítið mátt ræða þá.

Ég held að það sé fremst í röðinni að við setjumst niður og segjum: Heyrðu, ræðum þetta heildstætt. Hvar höfum við misstigið okkur? Hvar hefðum við kannski átt að gera athugasemdir eða hafna innleiðingu á einhverri gerð? En það hefur verið mjög erfitt að fá þessa hluti rædda. Sama þurfum við að gera varðandi Schengen-samstarfið (Forseti hringir.) sem ég held að sé að uppáleggja okkur skyldur, eða a.m.k. erum við ekki að nýta það svigrúm sem við höfum til að mynda til að verja landamærin (Forseti hringir.) þegar tilefni er til.