Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:05]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir hans vangaveltur og innlegg í umræðuna. Ég tel að umræða af þessum toga mætti gjarnan eiga sér stað í fleiri málum, þar sem frjáls þankagangur þingmanna fær að vera til þegar við veltum upp öllum málum. Að sjálfsögðu er ég sammála því að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bæta líf fólksins í landinu, fólksins sem við störfum fyrir, fólksins sem kýs að búa hér frekar en einhvers staðar annars staðar, hvaðan sem það kann að vera, og mín heitasta ósk er sú að við getum horft í spegilinn innan fárra missera og sagt: Það er fullur sómi að okkar þjóðskipulagi. Það er fullur sómi að því hvernig kjör við búum okkar landsmönnum, sama hvort þeir eru komnir á aldur eða ekki. Sama hvernig við horfum á það þá er ekki fullur sómi að í dag. Við erum sjötta ríkasta þjóð í heiminum samkvæmt OECD og við erum enn þá með tíund landsmanna hér við fátækramörk. Hvers vegna í dauðanum? Ef Evrópusambandsaðild myndi stroka út þessa augljósu skekkju og skömm þá væri ég fyrsti maður til að stíga þar inn. Ég er sammála því sem margir hér í þessum sal tala um. Það er óviðunandi ástand hér með örmyntina íslensku krónuna, þar sem enginn veit hverju er von á um næstu mánaðamót eða þarnæstu hvað varðar afborganir af íbúðum eða leigu eða hvað sem það er. Þessu ófremdarástandi verðum við að komast úr og ég er tilbúinn að horfa á hvaða leiðir sem er í þeim efnum og er alveg tilbúinn til að skipta um skoðun ef það væri bjargföst trú mín að það væri leiðin áfram, en í þeim efnum er fleiri en ein leið til farsældar. (Forseti hringir.) Verum ófeimin við að setja spurningarmerki við allar lausnir og tala okkur saman um þá bestu.