Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:44]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að fyrir okkur sem vorum vakin og sofin yfir þriðja orkupakka umræðunni stórskemmtilegu þá heyrast hér kunnugleg stef. Áhrifin eiga eftir að koma fram, bara aðeins seinna. Stærsta viðfangsefni okkar hér á Alþingi í lengri tíma. Þetta eru kunnugleg orð, kunnuglegir frasar. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spyr af hverju nú sé lögð áhersla á það að tryggja orðalag, treysta réttindi borgara og fyrirtækja hér samkvæmt EES-samningnum. Hefur það ekki legið fyrir alveg frá byrjun? Hafa markmið þessa samnings um einsleitni og réttindi borgaranna og fyrirtækjanna í landinu verið óskýr að mati hv. þingmanns? Mig langar til að rifja aðeins upp söguna eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur gert hér sömuleiðis og lesa upp, með leyfi forseta, aftur fyrir hv. þingmann úr samningnum sjálfum, úr viðaukum við hann, þar sem fram kemur orðrétt að EFTA-ríkin „skuldbinda sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum“. Þau skuldbinda sig til þess að tryggja að fólk og fyrirtæki geti byggt réttindi sín á EES-samningnum, EES-samningnum sem leiðir auðvitað af evrópskum reglum. Þá spyr ég hv. þingmann: Eiga afleiðingar þessa texta, þessa ógnvekjandi texta, enn þá eftir að koma fram? Erum við enn þá að bíða eftir því þessum áratugum seinna, þessum ragnarökum sem hv. þingmaður varar hér við? Eru þetta sterku varnaglarnir sem hv. þingmaður vísar í að við séum nú að afnema með breytingum sem hæstv. utanríkisráðherra leggur til? Það væri gott að fá svar við þessu.