Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eiga áhrifin enn eftir að koma fram, 30 árum síðar? spyr hv. þingmaður. Ég spyr á móti: Hvers vegna núna? Hvers vegna er verið að þvinga Ísland til þess að gera breytingar til að tryggja virkni þessa ákvæðis sem hv. þingmaður spyr hvort áhrifin af eigi eftir að koma í ljós? Og enn er vísað í þriðja orkupakkann. Þetta eru svona tvö meginatriðin sérstaklega hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins; heiðarleiki EES-samningsins og að allir sem gætu hugsað sér að gagnrýna hann vilji hann bara í burtu og svo þriðji orkupakkinn, að heimurinn sé ekki hruninn þótt hann hafi verið samþykktur. En við höfum ítrekað á undanförnum árum séð hvernig áhrifin af samþykkt, kæruleysislegri samþykkt, Alþingis á EES-reglum birtist. Hún birtist ekki daginn eftir. Hún birtist þegar menn allt í einu standa frammi fyrir því, eins og hæstv. ráðherrar meiri hlutans hafa sagt okkur ítrekað á þessu kjörtímabili og því síðasta, að við erum bara búin að samþykkja þetta. Og til að mynda í þriðja orkupakkanum. Við samþykktum orkupakka tvö, við bara verðum að samþykkja þetta. Nú horfum við fram á flugbannið með vísan til þess að Ísland hafi álpast til að elta Evrópusambandið í sinni loftslagsstefnu sem tekur ekkert mið af íslenskum aðstæðum og er eins furðuleg og hún nú er, snýst aðallega um að flytja iðnað og annað til Kína og draga úr framleiðslu á Vesturlöndum. Þá fáum við hér hæstv. ráðherra sem segja okkur: Nú verðum við bara að samþykkja eitt og annað af því að Evrópusambandið er búið að samþykkja það. Um flugpakkann, ETS, segja menn: Við munum ekki samþykkja þetta óbreytt. En hvers megum við vænta, herra forseti? Við þekkjum þetta báðir af reynslunni. Það kemur einhver tillaga um smá frest á innleiðingu en við bara verðum að samþykkja það af því að jú, við ákváðum að taka þátt í loftslagsstefnu ESB.