Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Samfylkingarinnar fyrir andsvarið. (Gripið fram í.) Afsakið, herra forseti, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, en spurningarnar voru á margan hátt sérkennilegar og minntu mig á, og þess vegna ruglaðist ég, málflutning hv. þingmanna Samfylkingar og Viðreisnar um hvers vegna við ættum að ganga í Evrópusambandið. Það er einhver vantrú á mikilvægi fullveldisins. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um Icesave-samninginn og mjög gott að hún minni mig á það. Ég gleymdi reyndar að nefna það. Icesave-samningurinn og deilurnar um hann — sem voru nú hálfgert stríð milli landa, ekki bara Íslands og Bretlands og Hollands heldur Íslands og Evrópusambandsins, nægar fékk maður nú heimsóknirnar frá ráðherrum Evrópusambandsríkja til að tala fyrir Icesave-samningnum — það fór eins og það fór vegna þess að íslensk lög og reglur voru enn þá æðri. Ég vísa bara á stuttan pistil, tekur ekki langan tíma að lesa, frá fyrrverandi hæstaréttardómara, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, sem skýrir mjög vel og á einfaldan hátt hvernig þetta mál vegur að fullveldi landsins og hefði gert okkur erfiðara fyrir, eins og ég get vitnað um sjálfur, við að klára mál eftir bankahrunið, þar með talið Icesave-deiluna. Það sem ég kalla eftir er að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki svona lítill í sér, herra forseti. Ég veit ekki hvort herra forseti er sammála mér um að það sé mikilvægt. Ég tel það mikilvægt að gamli góði Sjálfstæðisflokkurinn, með þá kosti sem hann hafði, fái aftur sjálfstraust og nýti það ekki hvað síst til að trúa á og berjast fyrir sjálfstæði, fullveldi landsins. Í millitíðinni verður hann líklega bara flokkurinn eða, eins og núna stefnir í, EES flokkurinn.