Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[16:09]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla aftur að koma inn á málefni barna af erlendum uppruna af því að ég sagði það í máli mínu hér áðan að við gætum gert miklu betur þegar kæmi að málefnum barna af erlendum uppruna. Það snýst vissulega m.a. um tekjur og fjármuni en það snýst líka um hvernig samfélagið tekur utan um þau. Við veittum sérstaka fjármuni til að reyna að ná til málefna barna af erlendum uppruna og aðstoða þau við eða hvetja þau til að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi.

Af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega hér áðan að börn sem ekki gætu tekið þátt í því sem önnur börn geta tekið þátt í ætla ég vitna til þess að það sem kom á daginn var að þetta snýst ekki einvörðungu um fjármuni. Jafnvel þó að tómstundastyrkir og greiðslur væru komnar upp fyrir það sem þátttaka kostaði þá voru það félagslegar og samfélagslegar áskoranir til að ná til þessara aðila sem þar skiptu máli. Það er eitt af því sem kemur fram í mati erlendra aðila á stöðu barna á Íslandi, þ.e. þessi mismunur á þátttöku í tómstunda- og íþróttastarfi. Það er áskorun. (Forseti hringir.) Við ætlum okkur að reyna að ná utan um hana en við erum ekki með töfrasvarið, ekki ég frekar en hv. þingmaður, sem kom hérna upp (IngS: Ég er með það.)og fór mikinn, (IngS: Já.) vegna þess að málefnin eru flókin og við viljum leysa þau. (Forseti hringir.) Ef hv. þingmaður er með töfralausnina (IngS: Ég er það.) til að börn af erlendum uppruna geti tekið þátt í tómstundum þá myndi ég bara þiggja að fá hana.

(Forseti (AIJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)