Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[16:38]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu sem mér fannst vera innihaldsrík og segja margt um raunverulega stöðu barna á Íslandi í dag. Ég hef ekki miklu við að bæta nema mig langar að spyrja hv. þingmann — af því að hann segir nú, eins og mér þótti sérstaklega athyglisvert, og áhugaverð nálgun þegar hann segir að við séum ólík í laginu. Það er rétt. Þarfirnar eru um leið náttúrlega mismunandi, ólíkar, eins og væntanlega hefur legið í orðum hv. þingmanns. Hér er hæstv. ráðherra að koma með frumvarp sem er búið að vera í smíðum ansi lengi. Þetta er búið að vera viðvarandi verkefni frá því ég settist á þing í desember 2017. Á sama tíma, eins og ég nefndi áðan, hefur fátækt íslenskra barna, samkvæmt áreiðanlegum greiningum, vaxið um 44%. Er það ekki áhyggjuefni og er það ekki ansi mikil töf þegar farið er af stað í þessa vegferð fyrir sex árum síðan, að börn sem voru átta ára á biðlista eru sum hver ekki enn þá búin að fá úrlausn sinna mála og eru í hneppt í fátækt í ofanálag og eru á 14. ári í dag? Hversu lengi, hv. þingmaður, getum við staðið hér og mært verk sem eru þess valdandi að ég myndi kalla þau hrein og klár mistök gagnvart í þessu tilviki einni viðkvæmustu og dýrmætustu samfélagseiningu sem við erum, sem er framtíðin okkar, sem eru börnin okkar?