Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[17:29]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarp til laga um Mennta- og skólaþjónustustofu á þskj. 1492, mál nr. 956.

Frumvarpið byggir á menntastefnu til ársins 2030 sem var unnin í víðtæku samráði við hagsmunaaðila og samþykkt hér á Alþingi árið 2021. Mikilvægur þáttur í menntastefnunni er uppbygging heildstæðrar skólaþjónustu um land allt þvert á skólastig. Þessi aðgerð er hluti af markmiðum og innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna í skólum sem við ræddum í fyrra máli.

Í samræmi við þessa stefnumótun hef ég í hyggju á næsta löggjafarþingi að leggja fram frumvarp til nýrra heildarlaga um skólaþjónustu. Löggjöfinni er ætlað að mæta skýru ákalli, sem komið hefur fram í samráði undanfarinna ára, um frekari og markvissari stuðning og ráðgjöf inn á vettvang skólans, fjölbreyttari fagþekkingu, fleiri úrræði og öflugri skólaþjónustu sem getur veitt stuðning inn í skólana, til foreldra og barna.

Í vetur höfum við átt í víðtæku samráði um allt land um nýja skólaþjónustu. Að þessu samráði hafa komið mörg hundruð einstaklingar, stjórnendur, fagfólk með fjölbreyttan bakgrunn, foreldrar og börn. Einstök efnisatriði frumvarpsins liggja ekki enn fyrir en unnið er að útfærslu þeirra í því samráði sem nú fer fram.

Í þessu samráði hefur þó komið skýrt fram að ný skólaþjónusta verður ekki að veruleika nema til staðar sé öflugur miðlægur aðili sem styður við skólaþjónustu. Þetta hefur jafnframt legið fyrir frá árinu 2021 þegar menntastefnan var samþykkt hér á Alþingi.

Meðal annars til að svara þessu ákalli mæli ég hér fyrir frumvarpi til laga um nýja stofnun, sem lagt er til að fái nafnið Mennta- og skólaþjónustustofa. Stofnun sem á að verða öflugur, faglegi og miðlægi aðili sem styður m.a. við skólaþjónustu um land allt.

Í frumvarpinu fellst jafnframt að Menntamálastofnun í núverandi mynd verður lögð niður. Sú sýn að miðlæg stofnun ríkisins eigi að vera þjónustustofnun við skólasamfélagið fellur ekki að hlutverki og verkefnum núverandi Menntamálastofnunar. Í frumvarpinu er því lagt til að hluti verkefna Menntamálastofnunar verði færður í nýja stofnun þar sem þau verða endurskilgreind með hliðsjón af nýjum markmiðum stofnunarinnar. Öðrum verkefnum Menntamálastofnunar, einkum stjórnsýslu- og eftirlitsverkefnum, verður komið fyrir annars staðar í stjórnsýslunni, þar á meðal í mennta- og barnamálaráðuneyti.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef þegar komið að er nýrri Mennta- og skólaþjónustustofu ætlað að vera þjónustu- og þekkingarmiðstöð á sviði fræðslu- og menntamála. Samkvæmt frumvarpinu á hún að starfa í þágu barna og ungmenna í samræmi við lög, stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið.

Í frumvarpinu er kveðið á um markmið með starfsemi Mennta- og skólaþjónustustofu. Þau eru m.a. að styðja við þroska, líðan og farsæld barna og ungmenna þegar kemur að skóla- og frístundastarfi, styðja við rétt barna og ungmenna til gæðamenntunar og skólaþjónustu og samhæfa skóla- og frístundastarf og skólaþjónustu, stuðla að jöfnuði og vera faglegt forystuafl og bakhjarl í skóla- og frístundastarfi og skólaþjónustu þvert á skólastig.

Í frumvarpinu er lagt upp með að marka ákveðinn ramma utan um verkefni nýrrar Mennta- og skólaþjónustustofu. Í frumvarpinu er fjallað um þessi verkefni í nokkrum liðum. Um er að ræða yfirgripsmikil og fjölbreytt verkefni sem öll eiga það sameiginlegt að fela í sér stuðning við skólasamfélagið.

Í frumvarpinu er fjallað um að Mennta- og skólaþjónustustofa fái skilgreint hlutverk við að styðja og efla menntun og skólastarf og styðja við skólaþróun. Verkefnið felur í sér að Mennta- og skólaþjónustustofa styðji við skóla og starfsfólk skóla og efli í hlutverkum sínum. Stuðningurinn nær til leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þetta gerir stofnunin m.a. með ráðgjöf, leiðsögn, námskeiðum og útgáfu leiðbeininga og fræðsluefnis. Stofnuninni er jafnframt ætlað sambærilegt stuðningshlutverk þegar kemur að frístundastarfi í landinu.

Eins og ég fjallað um í upphafi ræðu minnar er lagt til í frumvarpinu að Mennta- og skólaþjónustustofa fái leiðandi hlutverk þegar kemur að skólaþjónustu á Íslandi. Hér er horft til þeirrar framtíðarsýnar að nýtt fyrirkomulag skólaþjónustu verði lögfest á næsta löggjafarþingi. Gert er ráð fyrir að þá geti Mennta- og skólaþjónustustofa tekið að sér framkvæmd skólaþjónustu, eða ákveðinna þátta hennar, eins og því verður nánar lýst í nýjum lögum um skólaþjónustu. Frumvarpið tekur þó mið af því að þangað til að nýju fyrirkomulagi verður komið á fót muni Mennta- og skólaþjónustustofa starfa innan ramma skólaþjónustu í gildandi lögum, en í lögum um leikskóla og lögum um grunnskóla er skólaþjónusta skilgreind sem stuðningur við börn og fjölskyldur og stuðningur við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra, og framkvæmd af sveitarfélögunum.

Með frumvarpinu er lagt til að Mennta- og skólaþjónustustofa fái verkefni sem tengjast námsgögnum og varða útgáfu námsgagna og stuðning við skóla við notkun námsgagna. Við höfum hafið vinnu við frekari endurskoðun á fyrirkomulagi útgáfu námsgagna sem gert er ráð fyrir að fari fram nú á síðari hluta yfirstandandi kjörtímabils í samræmi við þau markmið sem koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og menntastefnu til ársins 2030. Er því gert ráð fyrir að það fyrirkomulag, sem fjallað er um í frumvarpi þessu um útgáfu námsgagna, muni taka breytingum fyrir lok þessa kjörtímabils.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að innan Mennta- og skólaþjónustustofu fari fram uppbygging og utanumhald með aðferðum og úrræðum fyrir skóla sem styðja við skólastarf og skólaþjónustu. Hér er átt við ýmis gæðaviðmið, verkferla, verkfæri, matstæki og önnur tæki til skimana og athugana á einstaklingum eða hópum. Í mennta- og barnamálaráðuneytinu er nú unnið að nýrri stefnu um námsmat og mun Mennta- og skólaþjónustustofa m.a. halda utan um afurð þeirrar vinnu. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að Mennta- og skólaþjónustustofa veiti faglegan stuðning og leiðsögn, m.a. við gerð innra mats, framkvæmd og eftirfylgni umbótaáætlana vegna ytra mats.

Í frumvarpinu er lagt til að Mennta- og skólaþjónustustofa styðji innleiðingu stefnumótunar stjórnvalda á sviði menntunar og farsældar barna og ungmenna og aðalnámskráa. Með því að fela Mennta- og skólaþjónustustofu þetta innleiðingarhlutverk í lögum eru væntingar um markvissari eftirfylgni með stefnumótun. Hefur þetta mikla þýðingu þegar kemur að fyrirhuguðum breytingum á skólaþjónustu þvert á skólastig.

Í frumvarpinu er jafnframt fjallað um fleiri verkefni Mennta- og skólaþjónustustofu, þar á meðal rannsóknir og skipulag fræðslu, en um þau vísa ég til frumvarpsins og umfjöllunar í greinargerð þeirri sem fylgir því.

Virðulegi forseti. Eins og ég fjallaði um fyrr í ræðu minni miða verkefni nýrrar Mennta- og skólaþjónustustofu að því að hún verði hreinræktuð þjónustustofnun sem styður við skóla, sveitarfélög og stofnanir um land allt. Þetta kallar á endurskoðun ýmissa verkefna á sviði menntamála, einkum þeirra sem Menntamálastofnun hefur nú með höndum.

Í frumvarpinu er því m.a. lagt til að öll söfnun, greining og miðlun upplýsinga um börn og ungmenni á sviði mennta- og fræðslumála á málefnasviði mennta- og barnamálaráðuneytis verði í höndum ráðuneytisins. Breytingarnar munu stuðla að heildaryfirsýn yfir farsæld barna hér á landi með heildstæðri og samræmdri gagnaöflun sem nær til allra málaflokka ráðuneytisins. Unnið er að því að verkefni tengd söfnun, greiningu og miðlun upplýsinga um farsæld barna verði endurskipulögð að fullu innan ráðuneytisins og erum við með áform um að leggja fram frumvarp til laga um gagnaöflun um farsæld barna á næsta löggjafarþingi. Í þessu felst að mennta- og barnamálaráðuneyti tekur við ábyrgð á alþjóðlegum greiningarverkefnum, t.d. PISA, frá Menntamálastofnun, auk annarra greiningarverkefna.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að eftirliti með skólastarfi, þar á meðal ytra mati sem Menntamálastofnun hefur séð um að framkvæma, verði komið fyrir í mennta- og barnamálaráðuneyti. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að leyfisveitingum og viðurkenningum verði almennt komið fyrir hjá viðkomandi ráðuneyti en slík verkefni eru nátengd eftirlitsverkefnum. Til framtíðar höfum við til skoðunar að koma eftirliti með skólastarfi og tengdum leyfisveitingum fyrir í eftirlitsstofnun sem eftir atvikum sinni jafnframt eftirliti með öðrum málaflokkum. Ég held að það séu talsverð tækifæri í því, jafnvel þvert á ráðuneyti, að eftirlitsverkefni þurfi ekki endilega að heyra undir stofnun sem er staðsett hjá viðkomandi ráðherra. Eftir breytingar sem urðu núna á málaflokkum ráðuneyta þá er eftirlit með ákveðnum þáttum barnaverndar enn þá hjá eftirlitsstofnun sem heyrir undir hæstv. félagsmálaráðherra og ég hef ekki séð neina meinbugi á því að það geti verið þannig áfram.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef þegar komið að felst í frumvarpinu að Menntamálastofnun verður lögð niður. Ljóst er að starfsemi Mennta- og skólaþjónustustofu verður verulega frábrugðin starfsemi Menntamálastofnunar. Greiningarverkefni, ytra mat og ýmis stjórnsýsluverkefni, sem hafa verið veigamikill þáttur í starfsemi Menntamálastofnunar, flytjast til ráðuneytisins þar sem þau verða endurskipulögð að fullu. Nýjar áherslur leiða til þess að endurskoða þarf forgangsröðun og áherslur þegar kemur að verkefnum sem verða flutt frá gömlu Menntamálstofnun til nýrrar Mennta- og skólaþjónustustofu, þar sem aukin áhersla verður lögð á þjónustu, ráðgjöf og stuðning við skólakerfið þvert á skólastig. Mennta- og skólaþjónustustofa verður ný stofnun, þjónustustofnun en ekki stjórnsýslustofnun, sem þarfnast þess að vera byggð upp frá grunni.

Af þessu leiðir að hvorki er unnt að flytja störf frá Menntamálstofnun yfir í nýja stofnun og eftir atvikum til ráðuneytanna með yfirtöku ráðningarsamninga, né bjóða starfsfólki forgang að nýjum störfum. Er því engin önnur leið fær við niðurlagningu Menntamálastofnunar en að leggja öll störfin formlega niður. Ný störf hjá Mennta- og skólaþjónustustofu og mennta- og barnamálaráðuneyti verða síðan auglýst laus til umsóknar.

Hvað varðar fjárhagsáhrif frumvarpsins er rétt að fram komi að gert er ráð fyrir fjárhagsáhrifum fyrir ríkissjóð en uppskipting verkefna mun kalla á tilfærslur fjárheimilda Menntamálastofnunar til Mennta- og skólaþjónustustofu og mennta- og barnamálaráðuneytis.

Virðulegur forseti. Stórar kerfisbreytingar eins og þær sem felast í frumvarpi þessu og þeim áformum sem munu fylgja í framhaldinu taka tíma. Ég tel að mjög mikilvægt sé að það samstarf sem hefur skapast þvert á flokka í þingmannanefnd í málefnum barna, þar sem allir flokkar hafa komið að vinnunni með einum eða öðrum hætti, haldi áfram. Jafnframt skal það sagt algerlega skýrt hér að þingmenn sem tekið hafa þátt í vinnunni skulu halda áfram að vera gagnrýnir. Þó að þeir hafi tekið þátt í vinnunni og frumvarpið hafi orðið til í samstarfi þá þýðir það ekki að þegar fram koma nýjar upplýsingar og ný sjónarmið sé ekki hægt að hafa skoðun á þeim, svo því sé algerlega haldið til haga.

Ég tel mikilvægt að hefja uppbyggingu þessarar nýju stofnunar sem fyrst svo hún verði í stakk búin til að takast á við verkefni samkvæmt nýjum heildarlögum um skólaþjónustu. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir með frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.