Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[17:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með þetta frumvarp. Ég er algjörlega sammála því að það er kominn tími til að söðla um og gjörbreyta allri umgjörð í kringum menntamálin okkar. Ég veit að hæstv. ráðherra er ekki í öfundsverðri stöðu því að hún er vægast sagt hrikaleg. Um 38% 15 ára unglinga ná ekki grunnfærni í lesskilningi og stærðfræði. Þetta eru tölur frá UNESCO frá 2020. Um 34% drengja og 19% stúlkna lesa sér ekki til gagns eftir tíu ár í grunnskóla. Þetta er PISA-könnun frá 2018. Í lesskilningi skora börn norskra og danskra innflytjenda hærra en íslensk börn, og ég veit ekki hvort ég á að vera að koma með áframhaldandi tölur, þetta eru staðreyndar tölur, en það eru sem sagt 457 stig sem norsk og dönsk börn hafa í sinni færni, en 15 ára drengir á Íslandi eru þar mun lakari. Ég ætla ekki að eyða tímanum í tölurnar en ég ætla að segja að skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar 2019 sýnir að 92,5% innflytjenda eru á rauðu og gulu ljósi íslenskukunnáttu. Sem sagt: Þau geta illa nýtt sér tungumálið. Skýrsla ASÍ frá 2020 sýnir að 10,8% 19 ára ungmenna eru hvorki í námi eða starfi. Þannig að það eru ærin verkefnin hjá hæstv. ráðherra og ég hvet hann til dáða. Mig langar til að spyrja hann í beinu framhaldi: Nú hefur verið gerð ákveðin tilraun, Kveikjum neistann, í Vestmannaeyjum. Þar eru niðurstöðurnar í rauninni stórkostlegar. Árangurinn er ótvíræður, hann fer ekkert á milli mála: Af 48 börnum á tveimur árum, tveimur fyrstu árunum, í 1. og 2. bekk, þá eru einungis tvö börn sem ekki eru farin að geta stautað sig þokkalega áfram í lestri, þannig að framtíð þeirra er björt. Ef ég skil hæstv. ráðherra: Er ekki ástæða til þess að berjast áfram fyrir svona frábærum verkefnum sem eru greinilega að skila jákvæðum árangri?