Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[17:52]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að þegar þessi stofnun er rædd þá leggjum við áherslu á þjónustuhlutverk hennar, þ.e. þá hugsun að hún verði miðlægur þjónustuveitandi, sé til staðar þegar upp koma ólíkar áskoranir og líka að hún sé þvert á skólastig, vegna þess að það höfum við ekki haft. Menntamálastofnun sem slík í dag hefur ekki haft það hlutverk með lögum að vera þessi aðili sem ríki og sveitarfélög ákveða sameiginlega að fái þetta hlutverk. Tökum sem dæmi: Það koma upp áskoranir er varða ofbeldi í skólum. Það er ekkert mikið sem breytist frá því að einstaklingur er 15 ára þangað til hann verður 16 ára og fer í framhaldsskóla varðandi að aðstoða við að stíga inn í þau mál. Svona er þetta með ótrúlega mörg mál. Þarna byggist upp miðlæg þjónustuþekking, framsækin, endurmenntun o.fl. þegar kemur að þessum þáttum. Þá fer einfaldlega ekki alveg saman að vera með stjórnsýsluna og eftirlitið á sama tíma þarna inni, vegna þess að þegar kemur að innra matinu og þjónustu við að ná ytra matinu þá viljum við að þessi stofnun sé sú sem þú hringir í til að fá aðstoð við það, en síðan komi ytra matið utan frá.

Rétt varðandi hagrænar greiningar. Það sem við gerðum með farsældarlögunum var að við reiknuðum út arðsemina af því að ráðast í þessa fjárfestingu, hvað við værum að gera ráð fyrir að grípa mörg börn o.s.frv., þannig að við erum að reyna að þróa það tæki áfram, m.a. í samstarfi við erlenda aðila og við fjármálaráðuneyti og fleiri aðila hér, til þess að geta nýtt það í frekari þætti til þess að börn nái farsæld. Og lestur er einn þeirra þátta. En við þurfum að ná að þróa tólið áfram til að geta nýtt það. Ég kem kannski betur inn á það á eftir og eins mælikvarðana o.fl. Þetta var alveg efni í talsvert meira en tveggja mínútna ræðu.