Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[18:18]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að fagna því að við séum að ræða menntamál í þessum þingsal. Mér finnst við gera of lítið af því. Ég nefni það sennilega í hvert skipti sem við fáum að ræða menntamál hversu lítið við gerum það en það er gott að við fáum tækifæri til þess hér í dag. Við erum að ræða frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um hina nýju stofnun, Mennta- og skólaþjónustustofu, og niðurlagningu Menntamálastofnunar. Stofnunin verður þjónustu- og þekkingarmiðstöð á sviði fræðslu- og menntamála, sem sagt ekki lengur stjórnsýslustofnun. Lögin eru hugsuð sem rammi utan um stofnunina og áætlað er að fjallað verði um verkefni Mennta- og skólaþjónustustofu í lögum sem gilda hverju sinni.

Þegar málið var kynnt í samráðsgátt komu fram athugasemdir um að skýrleika skorti um ýmsa þætti í frumvarpinu og þá komu framangreindar skýringar fram. Ég hefði sjálf kosið að heildarendurskoðun og endurskipulagning nýrrar stofnunar fæli í sér að heildin yrði skoðuð öll í einu. Það er erfitt að ætla að hnika til verkefnum ef ramminn er settur of þröngur en það er svolítið erfitt að gera sér grein fyrir því hvort það eigi við núna þar sem ramminn er svo sem alla jafna bara almennt orðaður. Þó er það þannig að ef horft er til t.d. verkefnisins um útgáfu námsgagna hefur orðalagið sem fyrir liggur um það verkefni ekki breyst frá fyrra horfi sem gefur til kynna að framkvæmdin muni ekki breytast í framhaldinu. Þegar verið er að setja á laggirnar nýja stofnun með nýju starfsfólki og nýjum áherslum er spurning hvort heppilegra hefði verið að taka þessa meginþætti, sem vitað er að eiga að fara í endurskoðun, strax í stað þess að allt hið nýja falli strax í sama gamla formið og muni eiga erfiðara með að taka breytingum eftir því sem líður á. Það er þess vegna sem ég tel að ekki sé hægt að ræða þetta frumvarp án þess að taka hér til umræðu fyrirkomulag á útgáfu námsgagna og ég ætla að helga ræðu mína þeirri mikilvægu starfsemi í menntun barnanna okkar.

Samkvæmt frumvarpinu mun ný Mennta- og skólaþjónustustofa taka við verkefnum Menntamálastofnunar og þar með fara með útgáfu námsgagna. Eins og segir í núgildandi lögum er það meðal hlutverka Menntamálastofnunar að sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum og öðrum nemendum eftir því sem stofnuninni kann að vera falið. Í frumvarpinu sem við hér ræðum er gert ráð fyrir að stofnunin muni ekki einungis sjá grunnskólum fyrir námsgögnum heldur er verkefnið útvíkkað til alls leik- og framhaldsskólastigsins. Sem er vel, það er gott að halda utan um þetta ef fyrirkomulagi á framkvæmd á útgáfu námsgagna er breytt samhliða.

Fyrirkomulag námsgagnaútgáfu hefur haldist nánast óbreytt frá árinu 1980 þrátt fyrir ýmsar breytingar á lögum um námsgögn og útfærslur á þeim ríkisstofnunum sem halda utan um útgáfu námsgagna. Námsgagnastofnun, Menntamálastofnun eða núna Mennta- og skólaþjónustustofa, heitið á stofnuninni virðist ekki skipta máli því að framkvæmdin helst hin sama. Þó hafa vissulega komið á þessum tíma mjög mikilvægar viðbætur eins og námsgagnasjóður og þróunarsjóður námsgagna.

Alþjóðlegur samanburður á námsgagnaútgáfu sýnir að við erum langt frá því að vera sambærileg nágrannalöndum okkar. Þar er útgáfa námsgagna hornsteinn í rekstri bókaútgefenda og skiptir sköpum fyrir bókamarkaðinn í heild sinni. Á Íslandi er sagan önnur og eiga bókaútgefendur lítið færi á því að komast inn á lista Menntamálastofnunar yfir þau námsgögn sem skólunum stendur til boða. Eins er mjög sjaldan, ef nokkurn tímann, leitað til þekkingar og reynslu íslenskra bókaútgefenda við útgáfu námsgagna heldur virðist ríkisstofnunin vilja halda spilunum þétt að sér.

Lög um námsgagnaútgáfu eru þannig almennt orðuð líka að þau gefa ekkert sérstaklega til kynna að hér sé ríkiseinokun á útgáfu námsgagna. Í greinargerð með lögum um námsgögn, nr. 71/2007, er svolítið útlistað hvernig framkvæmd á útgáfu námsgagna hjá Námsgagnastofnun — sem er þó ekki lengur til, ég verð að taka það fram — er háttað. Sú framkvæmd á við enn í dag og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í framkvæmd hafa grunnskólar fengið afhent námsgögn sem gerð eru fyrir tilstuðlan Námsgagnastofnunar, sem fær til þess fé á fjárlögum. Námsgagnastofnun ákveður hvaða námsefni er samið, það er síðan samið fyrir tilstuðlan stofnunarinnar og hún annast útgáfu námsefnisins og hefur það á boðstólum fyrir þá skóla sem eftir leita. Námsgögnum sem framleidd eru af Námsgagnastofnun er dreift endurgjaldslaust til skólanna og er réttur þeirra til úthlutunar reiknaður út í hlutfalli við fjölda nemenda í hverjum skóla og stærð skólanna.“

Þannig hefur framkvæmdin í reynd orðið þannig að skólar sjá ekki annan kost en að þiggja þær bækur sem ríkið hefur blessað og gefið út sjálft. Hér þarf að breyta framkvæmdinni þar sem lögin gefa raunverulega færi á breytingu á henni en til þess þarf þó pólitískan vilja.

Árið 2015 voru samþykktar breytingar á lögum um útgáfu námsgagna og sett var á laggirnar ný stofnun sem tók við hlutverki gömlu Námsgagnastofnunar og er það Menntamálastofnun sem við þekkjum í dag. Nú er gerð önnur breyting á þeirri ríkisstofnun sem fer með útgáfu námsgagna og ég hefði svo innilega viljað sjá raunverulegar breytingar gerðar í þessum fasa með niðurlagningu Menntamálastofnunar og setningu nýrrar Mennta- og skólaþjónustustofu.

Til að fá að halda áfram með útgáfu námsgagna og framkvæmdina þá var settur á laggirnar námsgagnasjóður með það fyrir augum að gefa skólunum tækifæri til að kaupa námsgögn sem aðrir en ríkisstjórnin hafa á boðstólum. Þó var sjóðurinn þannig gerður að einnig var hægt að nýta fjármuni hans í kaup á gögnum frá stofnuninni sjálfri. Nú segir í frumvarpi um lög um námsgögn, með leyfi forseta:

„Með námsgagnasjóði verður skólum og kennurum veitt aukið svigrúm til að velja sér efni í samræmi við markaða stefnu í skólanámskrá og til að stuðla að einstaklingsmiðaðri kennsluháttum. Þetta ætti að geta stuðlað að því að skapa einkaaðilum aukið svigrúm til að koma inn á markaðinn.“

Ljóst er nú að sjóðurinn hafði ekki burði til þess að raunverulega breyta markaðsaðstæðum. Bókaútgefendum er enn þá haldið úti í kuldanum.

Kennarar gera kröfu um meiri fjölbreytni í vali á námsgögnum til að fylgja eftir faglegum áherslum sínum. Grunnskólakennarar hafa í raun afar takmarkað val um önnur námsgögn en þau sem ríkisstofnunin hefur á boðstólum. Stofnunin hefur veitt þeim færi á að nýta hluta fjárveitingar sinnar til kaupa á öðru námsefni í gegnum námsgagnasjóð en sá hluti er vissulega bara afskaplega lítill. Þá var, eins og ég nefndi áðan, einnig settur á laggirnar þróunarsjóður námsgagna en gagnrýni á hann hefur að mestu leyti snúið að því að engin eftirfylgni virðist vera með þeim verkefnum sem hljóta styrk úr sjóðnum. Með setningu sjóðsins átti einmitt að nást betri yfirsýn með nýtingu fjármuna sem varið er til þróunar og nýsköpunar í gerð námsgagna. Á árunum 2016–2021 var úthlutað alls 233 styrkjum og hefur 166 verið lokið með útgáfu, eins og kom fram í svari við fyrirspurn minni um þróunarsjóðinn þar sem ég leitaði einmitt eftir svörum um nýtingu þeirra gagna við kennsluna sem hlotið hafa styrk. Skemmst er frá því að segja að slík gögn liggja ekki skýrt fyrir, einungis hlutfall þeirra verkefna sem gefin eru út. Það er erfitt að greina hvaða verkefni það eru sem raunverulega nýtast í kennslu í dag.

Þróunarsjóður námsgagna er mikilvægur og einna helst ætti að leita leiða til að stækka hann eða efla eða breyta honum einhvern veginn í ljósi þeirra öru tæknibreytinga og þeirra breytinga sem hafa orðið í samfélaginu á því hvernig námsmenn og yngri kynslóðir móttaka upplýsingar í gegnum tæknina. Ekki er til staðar nein stefna um aðgengi að rafrænum námsgögnum eða neitt raunverulegt átak í því að efla stafræna útgáfu námsgagna. Ekki er heldur með þessu frumvarpi gerð tilraun til að efla þennan sjóð eða nýsköpun í námsgagnaútgáfu — sem ég verð að segja að er miður.

Íslenskir bókaútgefendur hafa lýst sig reiðubúna að koma inn á þennan markað á grunnskólastigi en eru flestir nú þegar að gefa út námsgögn á framhaldsskólastigi. Þau rök sem hið opinbera notar óspart gegn aukinni aðkomu almennra bókaútgefenda að námsgagnaútgáfu er að markaðurinn hér sé svo smár og það yrði ekki hagkvæmt fyrir þessa aðila að fara í námsgagnaútgáfu. Íslenskir bókaútgefendur svara þessu þó þannig að þeir hefðu mikinn áhuga á því að koma að útgáfu námsgagna. Þeir hafa sjálfir ítrekað leitað til fjölmiðla til að vekja máls á þessu. Það er tímabært að við hér í þinginu hlustum eftir því og bregðumst við. Sé einhver hætta á því að íslenskir bókaútgefendur færu vegna hagkvæmnissjónarmiða ekki í útgáfu á gögnum í þeim fögum sem fáir nemendur eru að læra er okkur einfalt og ljúft og skylt að setja þá reglu að sú ríkisstofnun sem heldur utan um námsgagnaframboð á öllum skólastigum skuli einnig sjá til þess að námsefnið sé til staðar í öllum námsgreinum og að gæði námsefnisins sem framleitt er á vegum stofnunarinnar séu tryggð.

Þá þarf að hafa í huga að hér eru margir nemendur með annað móðurmál en íslensku og fer þeim fjölgandi. Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2022 höfðu 6.570 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli eða 13,9% nemenda. Þetta var fjölgun um 760 nemendur frá árinu áður. Ég mun leggja fram fyrirspurn hér í þinginu til að leita svara við því hvernig hraðri aukningu grunnskólanemenda með erlent tungumál að móðurmáli er mætt við útgáfu námsgagna. Ein af þeim athugasemdum sem mér hefur sérstaklega borist um útgáfu námsgagna er sú að námsgögn endurspegli ekki þann fjölda af börnum sem eru með annað móðurmál en íslensku. Algengasta erlenda móðurmál nemenda í grunnskólum á Íslandi er t.d. pólska sem töluð af tæplega 2.100 nemendum. Næst á eftir koma enska, arabíska, spænska og filippseysk mál en fleiri en 300 börn tala þau tungumál. Það er gott og vel að verið sé að bregðast við þessari þróun með skipulagsbreytingum, aukinni þjónustu og aðgengi að úrræðum en námsgögnin sem við vinnum með í skólunum verða að styðja við þá nemendur sem eru að læra íslensku og alveg sérstaklega verður að gera átak til að styðja við þá kennara sem glíma við þessa vaxandi áskorun í íslensku samfélagi.

Virðulegi forseti. Ræða mín hér í dag hefur vissulega að öllu leyti snúist um gerð námsgagna og heldur minna um skólaþjónustuna en það endurspeglast í minni sýn, að námsgögnin eru grunnurinn. Rétt er að taka fram að í greinargerð með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir endurskoðun á fyrirkomulagi útgáfu námsgagna og að hún fari fram á síðari hluta yfirstandandi kjörtímabils. Ég tel tilefni til að framkvæma þessa endurskoðun nú þegar í ljósi þess að námsárangri barna hérlendis fer hrakandi og áskoranir eins og fjölgun barna með erlent móðurmál eru vaxandi. Ef námsgögnin okkar eru ekki sterk, fjölbreytt, í stöðugri þróun og þjóna ekki hagsmunum barnanna þá er að mínu mati ekki raunverulega verið að vinna í því að bæta menntun hér á landi og tækifærið til þess svo sannarlega glatað.