Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[18:48]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að koma hingað upp og þakka fyrir þessa umræðu og reyna að koma inn á nokkur atriði sem beint var til mín eða sem mér finnst ástæða til þess að koma sérstaklega inn á. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa góðu umræðu. Mér finnst hún búin að vera gríðarlega málefnaleg og það hefur verið komið víða við. Ég ætla að reyna að stikla á nokkrum atriðum hérna.

Hv. þm. Guðbrandur Einarsson kom sérstaklega inn á að í þessum lögum væri nefnd líðan og geðheilbrigði. Eitt af því sem við erum einmitt að huga að með nýrri stofnun og nýjum skólaþjónustulögum er að fylgja eftir skýrslu og tillögum sem unnar voru á síðasta kjörtímabili og eru líka hluti af menntastefnu 2020–2030 um geðheilbrigði í skólum og hvernig við getum með auknum hætti kennt geðheilbrigði í skólum. Það tengist því sem við vorum að ræða hér áðan um biðlista eftir sálfræðiþjónustu og öðru slíku og eftirspurn eftir þriðja stigs þjónustu.

Síðan kom hv. þingmaður inn á litla skóla og hvernig við héldum betur utan um þjónustu við litla skóla þegar upp kæmu áskoranir. Það er auðvitað líka eitt af því sem þarf að ávarpa. Vísindasamfélagið hefur verið duglegt að benda á það að þegar kemur að gæðum náms og stuðningi við nemendur þá skuli það ekki vera þannig að það skipti máli hvort þú sért nemandi í litlum skóla með ekki mikið bakland eða í stærri skóla þar sem er faglegt bakland. Það er það sem skólaþjónustan þarf m.a. að taka utan um.

Lykilspurningin þegar við tölum um ákveðna samhæfingu, þegar við tölum um heildstæða skólaþjónustu þvert á skólastig leik-, grunn- og framhaldsskóla er: Hvernig ætlum við að ná því án þess að skerða faglegt frelsi skóla og frelsi einstakra skóla til að sækja fram? Það er alveg áskorun. Það er þessi lína sem við þurfum að ná að feta í þessum breytingum. Við viljum hafa ákveðið frelsi vegna þess að það er þar sem uppspretta breytinganna er o.s.frv., en það þarf líka ákveðna samhæfingu.

Hv. þingmaður kom líka inn á það sem lýtur að eftirliti með lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Eftirlit með þeirri löggjöf er í dag hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála en eftirlitið er á innleiðingartímanum, skulum við segja, ekki farið að bíta enn þá.

Síðan kom hv. þm. Berglind Ósk Guðmundsdóttir með mjög góða ræðu um námsgögn. Ég verð að segja að það var margt í hennar máli sem ég er mjög sammála. Kannski að segja aðeins í upphafi að ástæðan fyrir því að ekki er sérstaklega kveðið á um námsgagnabreytingar í þessum lögum og hvernig þeim verði háttað er sú að þetta er svona heildarrammi utan um stofnunina en síðan eru einstaka lög, eins og lög um námsgögn, lög um skólaþjónustu, sem kveða þá nánar um hvernig námsgagnaútgáfu skuli háttað. Og bara til að segja það væri ég tilbúinn til samtals við nefndina um að skerpa á þessu. Við erum komin af stað með vinnu um breytingar á námsgagnaútgáfu, þar sem við erum m.a. að vinna með Félagi íslenskra bókaútgefanda en við ætlum okkur líka að vinna með nýstofnuðum Menntatæknisamtökum um það hvernig sjáum við þessa námsgagnaútgáfu þróast. Það er í takt við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar vegna þess að við ætlum okkur að efla námsgagnaútgáfu og þá viljum við jafnframt skoða með hvaða hætti þarf að gera breytingar á henni. Þar höfum við í hyggju að kalla alla aðila að borðinu til samráðs og samtals og samvinnu. Það má hugsa sér að gera það hvort sem er með bráðabirgðaákvæði, eins og hv. þm. Ingibjörg Isaksen nefndi, til að ramma það bara inn að ráðuneytið þurfi að gera það, eða þá í nefndaráliti eða öðru slíku. Ég læt nefndinni eftir að meta það. En við erum sannarlega til í samtal um þau mál vegna þess að ég er sammála hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um að námsgögnin séu algjört lykilatriði.

Þegar kemur að börnum af erlendum uppruna sérstaklega, þessum aukna fjölda sem þingmaðurinn kom inn á, þá erum við ekki að standa okkur vel þar. Það er bara þannig. Þegar þú ferð og hittir skólastjórnendur og kennara sem eru að kenna börnum af erlendum uppruna þá fer allt of mikill tími í þeirra starfi í það að búa til námsgögn. Þetta bara er ekki í lagi. Þetta er eitt af því sem við þurfum að stórefla og er hluti af vinnunni um eflingu námsgagnaútgáfu. Allar leiðbeiningar þingsins eða allsherjar- og menntamálanefndar í því efni og sjónarmið eru bara vel þegin.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór aðeins yfir muninn á núverandi stofnun og nýrri stofnun. Ég verð að segja að það er kannski ekki miklu við það að bæta. Ég er bara algerlega sammála þeim greiningum sem hún var með og líka því sem lýtur að því þegar við verðum komin með þessa nýju þjónustustofnun, ef vel tekst til, að þær aðferðir sem stofnunin vinnur eftir og mælir með séu vísindalega viðurkenndar. Það er gríðarlega mikilvægt. Við erum með þetta þannig og þess vegna höfum við líka lagt áherslu á það í samtölum við háskólastofnanir og rannsóknarsamfélagið að hluti af svona breytingum sé auðvitað að við þurfum líka að efla vísindasamfélagið okkar og allt sem lýtur að því. Ég bara hvet nefndina til að skoða það sérstaklega ef menn hafa áhyggjur af því að þessi stofnun muni ekki vinna með þeim hætti — eða kannski ekki áhyggjur af því heldur hvernig sé hægt að skerpa á því að það sé rammað inn að unnið sé með þeim hætti. Ég ætla ekki að gerast sérfræðingur í einhverju sem vísindin eiga að rannsaka þegar kemur að mjög afmörkuðum kennslutæknilegum aðferðum eða öðru slíku. Það eigum við að láta vísindunum eftir. Svo er það auðvitað líka þannig að vísindin segja ekki alltaf A eða B, þau segja stundum einhvers staðar þar á milli, og þá þarf stofnunin að meta hvernig það er. Þá held ég að það sé bara ástæða til að skerpa á því.

Hv. þm. Ingibjörg Isaksen fór aðeins yfir ytra matið. Já, við sjáum fyrir okkur samhliða þessu, rétt eins og með námsgagnaútgáfuna, að fara í vinnu við ytra mat og erum að byrja að undirbúa hana, hvernig við sjáum ytra matið fyrir okkur og hvaða breytingar þurfi að verða á því. Hv. þingmaður nefnir ytra mat á sjö ára fresti, hvort ástæða sé til að endurskoða hvernig við eigum að vinna það o.s.frv. Sú vinna er bara á fyrstu metrunum núna. Það er, rétt eins og námsgögnin, eitthvað sem við eigum að nota í framhaldinu. Síðan er þetta auðvitað rammað inn í mjög framsækinni menntastefnu sem sett var á Alþingi til 2030. Við sjáum að þetta eru það miklar breytingar sem þurfa að verða á menntakerfinu að þær þurfa að gerast í bútum. Við erum að vinna eftir fyrstu aðgerðaáætluninni sem sett var í því efni, skólaþjónustu, börn af erlendum uppruna o.s.frv. Síðan þarf að setja nýja aðgerðaáætlun.

Ég ætla kannski bara að enda þetta á því sem hv. þingmaður og formaður nefndarinnar kom hér inn á áðan um starf kennarans. Mikilvægast af öllu er að við getum styrkt og eflt kennara í íslensku samfélagi inni í skólunum. Það er númer eitt, tvö og þrjú og upp í tíu. Það er það sem við þurfum að rýna í öllu sem við erum að gera. Kennslan fer fram í skólunum. Hún fer ekki fram á fræðsluskrifstofum, í menntamálaráðuneyti, hvað þá í þingsal Alþingis, hún gerist í hverri einustu skólastofu. Mér fannst þessi orð hv. þingmanns ramma þetta vel inn. Ég segi að lokum bara: Ég hlakka til samstarfs við nefndina og megi okkur takast í sameiningu að gera þetta frumvarp enn betra með breytingar í för með sér og aukinn stuðning inn í skólakerfið.