Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

Störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Ágústa Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er mikill heiður fyrir mig að flytja ræðu hér á Alþingi í dag. Ég hef varið starfsævinni á vettvangi háskóla og hugverkaiðnaðar og það er ánægjulegt að hugverkaiðnaðurinn skuli hafa fest sig í sessi sem fjórða stoðin í útflutningstekjum okkar. Árið 2022 var fjárfest í hugvitsdrifinni nýsköpun á Íslandi fyrir 55 milljarða íslenskra króna. Þar af komu 78% frá alþjóðlegum fjárfestum utan Íslands. Í nýlegri blaðagrein eftir hæstv. utanríkisráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, segir að þetta sé stærsta tækifæri Íslands og að það sé mikið heilbrigðismerki að langstærstur hluti fjárfestingar í íslenskri nýsköpun sé alþjóðlegur.

Ég tek heils hugar undir þau orð hæstv. ráðherra sem lýsa raunverulegri stöðu nýsköpunarfyrirtækja í undirbúningi fyrir markaðssetningu. Alþjóðlegar leyfisveitingar fyrir lækningavörur og lyf eru í höndum lyfjaeftirlitsstofnana. Fyrirtækin þurfa að uppfylla alþjóðlegar reglugerðir og kröfur um öryggi og virkni sem þýðir gríðarleg fjárútlát. Því má segja að meginverðmæti lyfja- og lækningavörufyrirtækja felist í samþykki markaðsleyfis frá yfirvöldum. Það felur m.a. í sér neytendavernd og er alger forsenda fyrir fullyrðingum um vöruna og samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Átak með fjármagni til að efla samstarf og samkeppnishæfni háskólanna, sem hæstv. ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, stóð fyrir, finnst mér vera til mikillar fyrirmyndar. Markmiðið er m.a. að auka gæði háskólanáms á Íslandi og fjölga innlendum sérfræðingum en jafnframt er bent á mikilvægi erlendra sérfræðinga fyrir íslenskan hugverkaiðnað.