Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:41]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er talað um stofnfrumurannsóknir í þessu frumvarpi, og við hæstv. ráðherra höfum átt samtal um stofnfrumur, sem auðvitað eru skemmra á veg komnar en æskilegt væri. Við höfum hins vegar orðið vitni að kraftaverkum á þjóðþekktum Íslendingum, sem hafa meira að segja tengst stjórnmálaheiminum, sem hafa læknast af stofnfrumumeðferðum.

Mig langar til að spyrja ráðherra: Væri ekki ráð að taka til sérstakrar rannsóknar þróun á stofnfrumum sem hafa m.a. gefið fyrirheit um undraverðar lækningar á Parkinson, sem stöðva ekki bara sjúkdóminn heldur snúa honum hreinlega við. Það er hægt að taka heilafrumur úr ungu fólki og færa á nákvæman stað í heilaberki hinna eldri. Ég spyr líka: Hvað gæti það verið sem veldur vaxandi frjósemisvanda á Íslandi og í heiminum? Eru það geislunaráhrif, eru það (Forseti hringir.) fæðuáhrif? Eða hvað er það? Hækkunin á milli ára er skuggaleg.