Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[15:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Bara nokkrar athugasemdir. Ef ég ber þetta saman við kannski hið klassíska egg- eða sáðgjafafyrirkomulag þar sem einhver er sáðgjafi eða egggjafi og það er ekki beinlínis vitað hver viðkomandi er, þó að það auðvitað sé skráð og þar fram eftir götunum, þá hefur almennt séð verið hægt eins og við þekkjum í umræðunni, ég veit ekki hárnákvæmlega hvernig það er tæknilega séð hér á landi, að nálgast gjafasæði fyrir tæknifrjóvgun fyrir þennan eða hinn aðilann, fólk fer kannski erlendis til að afla sér slíks. Fullt af flækjum þar á bak við. En þar er ekki um þessa beinu tengingu að ræða, að það þurfi að vera frá fyrrverandi maka eða fráfallins eða að viðkomandi þurfi að vera einhleypur. Mér finnst það dálítið áhugavert. Af hverju þarf viðkomandi að vera einhleypur? Má hann ekki vera í sambúð þess vegna eða eitthvað flóknara? Það þarf að takmarka þetta við það. Væntanlega er þá samþykki allra í þeirri sambúð eða hjónabandi eða hvað sem það er fyrir þessu fyrirkomulagi sem er ákveðið, að það að nýta sæði fráfallins maka sé í lagi. Aftur: Það er upplýst samþykki. Ekkert slæmt við það, gott að hafa upplýst samþykki úti um allt. Ef við berum þetta saman við þetta klassíska módel, að fá gjafasæði hjá einhverjum sáðbanka eða einhverju því um líku eða fá egg, sem er aðeins flóknara, þá finnst mér þetta vera pínulítið takmarkandi. Það eina sem þarf og er hönd á festandi þarna og nauðsyn er á, er þetta upplýsta samþykki, það eigi ekki að takmarka það varðandi gjöfina hver geti verið þegi. Það er hægt að stilla því upp í nokkra flokka; hver sem er, bara þessir aðilar, hópur aðila eða einn aðili. Er ekki hægt að hafa þetta það einfalt? Það sé bara upplýst samþykki þess sem gefur. Sá sem er að þiggja er að sjálfsögðu að taka upplýsta ákvörðun í hvert skipti þegar svo er um að ræða. Af hverju þarf að takmarka þetta við það að viðkomandi þurfi að vera t.d. einhleypur? Er það skilyrði í öðrum tæknifrjóvgunum þegar er verið að leita t.d. að gjafasæði? Nei, ég held ekki. Af hverju þarf það þá hérna?