153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

raforkulög.

943. mál
[21:25]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Nú er ákveðin áhersla í það minnsta hjá Landsvirkjun sem er langstærsti aðilinn á markaðnum. Hún er einhvern veginn með þessum hætti, þ.e. að forgangsraða í orkuskiptin, en sömuleiðis að sinna þeim fyrirtækjum sem þau eru að sinna nú þegar og mér finnst þetta vera skynsamleg áhersla. Það er í mörg horn að líta þegar kemur að loftslagsmálunum. Við ræddum í dag líffræðilega fjölbreytni en síðan þurfum við líka að líta til réttlátra umskipta. Mér hefur fundist menn tala svolítið frjálslega, ég ætla ekki að segja að hv. þingmaður sé að gera það, þegar kemur að vinnu fólks. Ég held að við eigum ekki að hafa þá stefnu að kippa grunninum undan því á einni nóttu (Forseti hringir.) þó svo að við ætlum að ná loftslagsmarkmiðunum og við þurfum ekki að gera það þótt við náum loftslagsmarkmiðunum. Ég er ekki að segja að hv. þingmaður sé að vísa til þess en mér hefur fundist það stundum liggja svolítið undir í umræðunni.