153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

raforkulög.

943. mál
[21:36]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en það verður að leiðrétta þetta með orkupakkana. Það er enginn orkupakki sem tryggir að hægt sé að leggja sæstreng. Það er bara ekki rétt. Ef það á að leggja sæstreng frá Íslandi þá þarf Alþingi Íslendinga að samþykkja það. Það er bara svo einfalt. Það skiptir engu máli hvaða einstaklingur er að gera hvað úti í bæ, bara ekki neinu. Engu. Og jafnvel þó að við værum ekki partur af EES-samningnum og stjórnvöld myndu vilja leggja sæstreng þá getum við það alveg. Ef við gengjum úr EES einn daginn og svo einn daginn er hér meiri hluti þingmanna sem myndi ákveða að leggja sæstreng, þá bara gera þeir það. Þannig að þetta hefur ekkert að gera með reglugerðarumhverfið. Það er ekki bara bundið við Evrópu, alls ekki, að menn séu með þannig fyrirkomulag á flutningskerfinu þar sem aðilar geta komið og framleitt inn á það og selt. Það er þróun sem er aukast úti um allan heim. Við erum með svo öra þróun í sólarorku t.d., sem við getum kannski frekar kallað birtuorku, sem við getum notað hér á Íslandi. Það er fyrirtæki í Reykjavíkurborg sem keyrir sína lýsingu að stórum hluta með sólarorku. Miðað við reglugerðarumhverfið núna, ef þetta væri enn þá meira magn hjá viðkomandi fyrirtæki þá gæti það selt inn á flutningskerfið og selt öðrum orkuna, sem myndi hjálpa öllum, myndi ég ætla. En það er einfaldlega ekki rétt hjá hv. þingmanni að einhverjir orkupakkar hafi tryggt að það sé hægt að leggja sæstreng. Það er bara ekki þannig.