153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

raforkulög.

943. mál
[21:47]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ágætisumræða hérna. Auðvitað er ekkert allt alslæmt við orkupakkann, það er ekki þannig. En hann bara hentar ekki á litla Íslandi þar sem 90% þeirra sem framleiða eru opinberir aðilar. Það er gríðarlegur kostnaður og umbúnaður sem fylgir þessu og er algjörlega óþarfur. Og ég held — ég held ekkert, ég er alveg fullviss að það hefur leitt til gríðarlega aukins kostnaðar að vera í þessum samkeppnisleik opinberra aðila. Förum bara yfir þetta. 90% af þessum fyrirtækjum sem eru að framleiða eru í opinberri eigu. Síðan eru 80% af orkunni seld í föstum samningum. Svo vil ég bara spyrja hv. þingmann: Skilur þú orkureikningana þína? Þetta kemur í þremur skömmtum jafnvel og orkureikningar á Íslandi eru oft mjög torskildir. Þetta þarf ekki að vera svona. Ég held að við eigum miklu frekar að koma okkur frá þessum orkupökkum og reyna að komast hjá því, þetta litla land, 400.000 manns, afmarkað úti í hafi, að fara í samkeppnisleik þar sem allir leikendur eru opinberir aðilar. Þetta er bara kjánalegt. Það er það. En þó það nú væri að menn forgangsröðuðu ekki orkunni með þessum hætti eins og kemur fram í frumvarpinu. Það væri eitthvað verulega undarlegt ef svo væri ekki, ef einhver orka til heimilanna væri ekki sett í forgang. Auðvitað eigum við ekki að kenna orkupökkunum um allt og að allt fari til fjandans. En þetta er bara óþarfa umbúnaður sem ég held að væri rétt að endurskoða.