Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

handiðnaður.

948. mál
[17:27]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um handiðnað, nr. 42/1978. Efni frumvarpsins er einfalt en það er að flytja útgáfu sveinsbréfa frá ráðherra iðnaðarmála til sýslumanna.

Sveinspróf sem slík eru á ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra og hafa stoð í lögum um framhaldsskóla. Þegar nemi hefur lokið iðnnámi og samningsbundnu vinnustaðanámi getur hann sótt um að þreyta sveinspróf. Niðurstöður slíkra prófa eru þá skráðar í svonefndan sveinsprófagrunn þaðan sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið prentar og gefur út sveinsbréfin. Aðkoma ráðuneytis míns felst þannig í umsýslu, prentun og undirritun allra sveinsbréfa, samskiptum við framkvæmdaraðila sveinsprófa og við staðfestingu sveinsréttinda eða endurútgáfu sveinsbréfa þegar áður útgefin bréf hafa glatast. Árlega eru útgefin um 700 sveinsbréf á landinu.

Samkvæmt frumvarpi þessu er útgáfa ráðuneytisins á sveinsbréfum flutt til sýslumanna sem standa þegar að útgáfu meistarabréfa. Meistarabréf veitir handhafa þess rétt til að reka sjálfstæða atvinnustarfsemi í viðkomandi iðngrein, taka nemendur til náms í greininni og kalla sig meistara. Nú er hægt að sækja um útgáfu meistarabréfa rafrænt gegnum Ísland.is. Hér er sem sagt lagt til að sami útgáfuaðili verði að bæði meistarabréfum og sveinsbréfum, þ.e. sýslumaður. Fyrir þeim flutningi liggja sterk og einföld rök:

Núverandi gagnagrunnur um sveinsbréf er kominn til ára sinna og uppfyllir ekki nútímakröfur. Með útgáfu af hálfu sýslumanna verða upplýsingar úr grunninum fluttar yfir í starfskerfi sýslumanna sem hefur þann eiginleika að geta haldið utan um mál og þaðan er hægt er að miðla upplýsingum.

Sveinsbréf verða alfarið rafræn og umgjörð um útgáfu þeirra þannig einfaldari. Handhafar bréfanna geta nálgast bréfin á rafrænan hátt gegnum Ísland.is sem gerir þeim auðveldara fyrir að sýna fram á réttindi sín auk þess sem endurútgáfa sveinsbréfa verður þá að öllu óþörf.

Mögulegt verður að birta opinberlega lista yfir útgefin sveinsbréf og auka þannig gagnsæi og neytendavernd. Þegar er að finna í lögum um handiðnað heimild fyrir ráðherra til að fela öðrum útgáfu sveinsbréfa að fullnægðum skilyrðum laga en með vísan til skýrleika er talið rétt að lögfesta hlutverk sýslumanna við útgáfu bréfanna.

Enn fremur er lagt til að við bætist ákvæði sem finna má í ýmsum lögum sem snúa að framkvæmd verkefna sýslumanna og mælir fyrir um að ráðherra sé heimilt í reglugerð að ákveða að þau verkefni sem sýslumanni eru falin með lögunum verði á hendi eins sýslumanns, til að mynda starfsstöð á landsbyggðinni.

Við undirbúning frumvarpsins var samráð haft við dómsmálaráðuneyti, sýslumannaráð, mennta- og barnamálaráðuneyti og Stafrænt Ísland.

Kostnaður hins opinbera við yfirfærsluna sem frumvarpið mælir fyrir um er óverulegur. Ekki er gert ráð fyrir nýjum fjárveitingum vegna frumvarpsins en þetta gæti sparað ýmis handtök og gert kerfið einfaldara og skilvirkara.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.