Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

982. mál
[18:06]
Horfa

Ágústa Guðmundsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar fyrir þessa kynningu á þessari mikilvægu þingsályktunartillögu. Það er náttúrlega ekki miklu við þetta að bæta. Þetta er alveg sérlega vel unnin tillaga en það eru þó nokkur atriði sem mig langar aðeins að hnykkja á. Það er í fyrsta lagi með þessar STEAM-greinar sem eru náttúrlega undirstaða fyrir svo margt núna, sérstaklega í okkar hröðu framþróun í vísindum og tækni. Ég vil nefna bara greinar eins og eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði, verkfræði; líffræði kemur alls staðar inn og þetta er ekki bara með tilliti til hugverkaiðnaðarins heldur er þetta líka fyrir bæði grunn- og framhaldsskólanemendur, að þeir geti þá lesið sér til um hvað er að gerast í vísindum og tækni.

Við vitum náttúrlega að það er skortur á sérfræðingum til að hámarka vaxtargetu hugverkaiðnaðarins. Og mig langar að vitna, með leyfi forseta, í nýjasta iðnþing þar sem er beinlínis ákall frá iðnaðinum um að menntakerfið lagi sig betur að framtíðinni og tækifærunum og ég eiginlega verð að segja að mér finnst mjög mikilvægt, og ég heyrði það á mörgum af þessum fyrirtækjum hugverkaiðnaðarins, að þá vantar tilfinnanlega mikið menntað fólk, sérstaklega í líftækninni og því sem varðar gervigreind og annað. Við þurfum að fjölga greinilega doktorum til að framleiða fleiri sérfræðinga, ekki bara fyrir hugverkaiðnaðinn heldur líka bara fyrir framtíðina og börnin okkar og afkomendur.

Mér finnst mjög spennandi tilhugsun varðandi doktorsnámið, það eru margir sem verða hálfhræddir þegar maður minnist á doktorsnám, en það er hægt að gera þetta mjög skemmtilega með því að tengja verkefni doktorsnemanna kannski betur við tæknifyrirtækin og hugverkaiðnaðinn þannig að þau geti tekið hluta af sínu námi, að sjálfsögðu með mikilli umsjón og samstarfi við háskólana. Þetta er eitthvað sem mér finnst mjög spennandi. Annars vitum við náttúrlega að það hefur orðið mikil breyting til batnaðar á umhverfi nýsköpunar á undanförnum árum.

En ég vil segja líka að fjölgun í heilbrigðisvísindum er mjög mikilvæg. Þá erum við að tala um lækna og hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk sem kemur að umönnunarstörfum. Aukið samstarf háskóla var algjörlega nauðsynlegt og ég vona að það haldi áfram og ég veit að það mun gefa vel af sér, það verður sennilega þannig að það verður alltaf stöðugt í gangi ný og ný umræða um þetta.

Alþjóðavæðing háskóla og nýs vísindastarfs er náttúrlega eitthvað sem hefur kannski alltaf verið til staðar. Við erum, sem höfum kennt við háskóla, þá í sífelldum samskiptum við aðrar þjóðir og kollega okkar í útlöndum. T.d. hefur reynst mjög mikilvægt að komast í tækjakost í útlöndum vegna þess að það hefur skort. En ég heyri að hæstv. ráðherra kynnir til leiks samþjöppun á tækjabúnaði. Það er þessi djúptæknikjarni sem menn eru að horfa á að verði þá jafnvel staðsettur í Vísindagörðum og það er mjög spennandi.

Aukin nýting hugverkaréttinda er eitthvað sem við þurfum að efla okkur í. Það hefur verið verulegur skortur á hugverkum sem hafa verið lögð fram. En þetta horfir vonandi til betri vegar.

Ég ætlaði að minnast á eitt varðandi hugverkaumsóknir. Það er náttúrlega Auðna tæknitorg sem er í Grósku sem hefur aðstoðað vísindamenn, bæði í háskólum og stofnunum með einkaleyfi. Ég held að það sé mjög gott ráð að leita til þeirra og annarra sem eru í þessum geira því að maður þarf oft mjög mikla aðstoð við gerð einkaleyfa því það er alls ekki sama hvernig þau eru lögð fram. En ég held að ég láti þetta nægja og bara fagna innilega þessari þingsályktunartillögu, takk fyrir.