Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[18:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í sjálfu sér er full ástæða til að fagna þessari þingsályktunartillögu og öllum aðgerðum sem vekja athygli á gildi góðrar hönnunar og arkitektúrs og stuðla auðvitað ekki síður að því. Ég tek það fram í upphafi að ég mun styðja þessa aðgerðaáætlun og vona að hún batni enn í meðförum þingsins. Ég verð þó að koma inn á nokkra hluti sem mér finnst skipta máli. Þegar við ákveðum að gefa einhverju gaum, samþykkjum jafnvel stefnur og þingsályktunartillögur, þá er það til bóta að við framfylgjum því. Það var nefnilega samþykkt ágætisstefna fyrir arkitektúr og hönnun árið 2007 í tíð þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, og síðan voru gerðar endurbætur á þeirri stefnu árið 2014 í tíð Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. Að mínu mati er hún í fullu gildi og það er ýmislegt sem hefði þróast á miklu betri veg og við værum á betri stað ef henni hefði verið fylgt í meira mæli en gert hefur verið. Það hefur ekki verið. Það þýðir þó ekki að þessi þingsályktunartillaga geti ekki gert heilmikið gagn. Nú er ég ekki að gagnrýna ráðherra fyrir að leggja hana fram en ég bendi á að stundum fylgja orðum ekki athafnir. Í þessari stefnu segir, með leyfi forseta:

„Byggingarlist er fjárfesting til langs tíma. Mannvirki, sem vandað er til, ávaxtar þá fjármuni sem í það er lagt, hvort heldur litið er til lægri viðhalds- og rekstrarkostnaðar eða sveigjanlegra fyrirkomulags og notagildis á líftíma þess. Þá hefur vönduð byggingarlist og góð borgarrými aðdráttarafl á einstaklinga jafnt sem fyrirtæki.“

Síðan eru talin upp fjölmörg tölusett atriði sem ber að hafa í huga og ég ætla bara að nefna tvö af því að ég ætla ekki að tala lengi. Það er talað um líftímakostnað, að við hönnun og byggingu mannvirkja verði tekið tillit til líftímakostnaðar en ekki einungis stofnkostnaðar. En það er akkúrat það sem við gerum alltaf á Íslandi, við horfum bara á stofnkostnað. Þetta er ekki aukaatriði, þetta er grundvallarmál. Ef við tökum nú bara stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, Landspítalann, þá hefði reynt fólk á sviði hönnunar getað, með mikilli nálgun áður en kostnaðarútreikningar voru gerðir, sagt hvað sú bygging myndi kosta. Af hverju? Vegna þess að reynslutölur marga áratugi aftur í tímann segja okkur það að rekstrarkostnaður svo flókins mannvirkis sem sjúkrahús er, er eftir tvö ár hinn sami og byggingarkostnaður. Hlutfallið í skólum er fimm ár og svona er hægt að halda áfram.

Hvað segir þetta okkur? Þetta segir nákvæmlega það sem ég var að lesa upp áðan, að það getur falist gríðarlegt hagræði og sparnaður í því að horfa ekki bara á stofnkostnaðinn vegna þess að hann á eftir að spara rekstrarkostnað næstu 50 ár á eftir, fyrir utan það að þá gæfist hönnuðum tækifæri til þess að nýta vandaðra og betra efni, gæða byggingarnar lífi og gera þær meira fyrir augað án þess að vera sífellt sakaðir um að bruðla eða reisa sér minnismerki. Þetta er bara lykilatriði og í sumum löndum reikna menn byggingar svona. Hér á landi reiknum við kaup á lóð, hönnun og byggingu og svo höldum við að við séum laus allra mála, erum kannski búin að spara í útveggjaklæðningum, spara í gólfefni, spara í gluggum og fáum þetta svo nokkrum sinnum í hausinn á næstu árum og áratugum. Önnur lönd reikna inn í byggingarkostnað lóðakaup, hönnun, rekstur í 40–50 ár og niðurrif á byggingunni. Þetta er því eitthvað sem mætti alveg hafa í huga og hefði betur verið fylgt eftir.

Fjórði liður fjallar um rannsóknir. Þar stendur að það skuli styðja skipulagðar rannsóknir til þróunar í mannvirkjagerð og þar er bæði átt við fræðilegar, listrænar og tæknilegar rannsóknir. Þessar rannsóknir geta bæði farið fram í mennta- og rannsóknastofnunum sem og við hönnun og byggingu mannvirkja. En hver er svo staðan á Íslandi, herra forseti? Hún er sú að fyrir nokkrum árum, í tíð síðustu ríkisstjórnar, rann Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins inn í Nýsköpunarmiðstöð, sem var afar mikilvægt fyrir greinina, og skömmu síðar var Nýsköpunarmiðstöð lögð niður. Vissulega settu menn pening í mannvirkjasjóð Asks, sem er einhvers konar samkeppnissjóður sem í sækja stór og stöndug fyrirtæki, gjarnan verkfræðifyrirtæki, en við höfum enga tryggingu fyrir því að sú þekking sem þar verður til staðar skili sér almennt inn í geirann. Við höfum því beinlínis stigið skref aftur á bak þegar við höfum fellt niður og veikt rannsóknir á byggingum á Íslandi. Þetta gerist á sama tíma og hér er á hverjum einasta degi talað um að það skorti húsnæði og það sé of dýrt. Margar ástæður eru fyrir því að það er dýrt að byggja á Íslandi. Veðurlag er flókið og sviptingasamt og getur verið frost og þíða nokkrum sinnum í sama mánuðinum. Við notum gamaldags byggingaraðferðir, miklu meira gamaldags að flestu leyti heldur en margar nágrannaþjóðir okkar. Það má alveg örugglega rekja það til skorts á nýsköpun og rannsóknum. Vegna þess höfum við líka minni framleiðni, eins og hefur verið sýnt fram á, heldur en þekkist í nágrannalöndum okkar. Sumir segja 75% eða 80% framleiðni miðað við það sem þekkist í Danmörku og Noregi. Það er bara býsna dýrt, herra forseti, þegar við lifum líka í landi þar sem fjármagnskostnaður er mjög mikill, að tefja byggingu óhóflega mikið. Við höfum því í rauninni allt að vinna þegar kemur að þessu og ég hefði talið að þegar að því kom að lyfta upp hönnun og arkitektúr þá hefðu menn átt að einblína á þetta og byggja grunninn fyrst undir það. Það skiptir verulega miklu máli.

Þá er rétt að benda á að arkitektar og hönnuðir yfirleitt eru ekki eyland og bak við hvert hús er auðvitað fjöldi aðila sem þarf að koma að framkvæmd; verkfræðingar, iðnaðarmenn og góður verkkaupi og það verður einhvern veginn að flétta það inn í þessa vinnu ef haldið verður áfram með þessa framkvæmdaáætlun. Þó að það sé góðra gjalda vert að ríkið komi og byggi nokkrar praktbyggingar á sérhverjum áratug þá þarf líka almennt að horfa meira á metnað opinberra bygginga. Það er ekki nóg að byggja utan um íslenskt mál og fyrrum forseta og byggja falleg menningarhús. Flestir Íslendingar eru notendur að skólabyggingum og slíku og þær eiga auðvitað líka að vera vandaðar og góðar. Ef horft væri til líftímakostnaðar þá yrðu okkar byggingar vandaðri og síðast en ekki síst þá á það að vera hlutur íslenskra stjórnvalda, eins og ég held að tilgangur hæstv. ráðherra með þessari þingsályktunartillögu sé, að bæta og efla bæði húsakost og skipulag hér á landi. Mig langar aðeins að koma inn á það vegna þess að þar finnst mér kannski vanta aðeins inn í, þótt aðeins sé minnst á það. Ég er eiginlega búinn með tímann en ég hefði gjarnan viljað ræða aðeins um skipulagsmál hér vegna þess að við höfum aðeins verið að horfa á skynsamlegri leiðir með blandaðri evrópskri byggð og höfuðborgarsáttmálinn er auðvitað mjög góður vitnisburður um það, en við erum enn of föst í þessu ameríska líkani bílsins sem getur í rauninni varla skapað gleði fyrir nokkurn mann.