Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[19:10]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að leggja það til að við horfum til Noregs. Ég vil upplýsa hann um það að þegar við vorum að leggja grunninn að þessari stefnu áttum við í sérstöku samstarfi við norsk stjórnvöld á þessu sviði og líka dönsk vegna þess að Danir standa mjög framarlega. Norðmenn eru á öðrum stað en Danir en það er alveg heilmikið sem þeir hafa verið að gera og við erum að auka enn frekar samstarfið á sviði hönnunar og arkitektúrs.

Í öðru lagi vil ég upplýsa um það að Feneyjatvíæringurinn er haldinn annað hvert ár í tengslum við myndlist en hitt árið í tengslum við hönnun og arkitektúr og við höfum ekki verið þátttakendur, við höfum ekki verið eins skipulegir þátttakendur í Feneyjatvíæringnum að því er ég best veit. En ég verð nú að viðurkenna að ég sé að hv. þingmaður telur að þetta sé aðeins öðruvísi. Eins og ég hef skilið það þá höfum við verið formlegir þátttakendur í myndlistartvíæringnum en ekki í hönnun og arkitektúr. Nú viljum við breyta því þannig að við séum þátttakendur í bæði hönnun og arkitektúr og svo myndlist, af því að það sem við höfum séð er að það er alveg gríðarlegur kraftur sem fylgir þessari þátttöku og mikill áhugi og margföldunaráhrifin geysileg. Við finnum líka að það er svo margt sem við getum gert betur á sviði hönnunar.

Ég vil líka nefna það hér að eitt af því sem er gott við breytt fyrirkomulag í Stjórnarráði Íslands er að hönnuninni var iðulega tvískipt. Hluti af henni var í mennta- og menningarmálaráðuneytinu; menntun, hluti af Hönnunarsjóði, og svo það sem tengdist meira atvinnuvegum var í atvinnuvegaráðuneytinu. Þetta taldi ég að væri alltaf löstur á þessari stefnumótun fyrir hönnun og arkitektúr. Það sem við höfum verið að gera er að taka hverja grein fyrir sig og að öll stefnumótun sé í einu ráðuneyti og svo eigum við í mjög þverfaglegu samstarfi við fagaðila.

Að lokum vil ég nefna að sú vinna sem ég er að kynna hér er vinna sem er unnin í mjög nánu samstarfi við grasrót hönnunar og arkitektúrs. Við höfum tekið mið af öllum þeim stefnuskjölum sem hafa áður verið unnin og ég í raun og veru kem hér og er að kynna þessa vinnu og við höfum lagt áherslu á að þetta sé aðferðafræði þar sem er sterk fagnálgun sem endar svo í þessari opinberu stefnumótun og það er styrkurinn við þessa stefnumótun sem við höfum verið að leiða.