Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

aðgerðir vegna ópíóíðafaraldurs.

[10:33]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hans góða vilja og hans góða hug gagnvart því neyðarástandi sem hér ríkir vegna ópíóíðafaraldurs sem hefur herjað á okkur sem aldrei fyrr. Ég heyri að hæstv. ráðherra er með góðan hug til þess að gera það sem í hans valdi stendur til að sporna við, ef nokkur er kostur, þeim ótímabæru dauðsföllum sem við erum að horfast í augu við. Framkvæmdastjóri SÁÁ segir yfir 35 einstaklinga hafa dáið það sem af er árinu, þ.e. þeir sem hafa verið á skrá hjá SÁÁ. Það er ekki allur sá fjöldi sem þegar hefur látið lífið og aldrei eins mikill fjöldi og síðustu tvær vikur eða svo.

Ég ætla fyrst og síðast að koma hingað til að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða, til að hvetja hann áfram til góðra verka og til að segja honum að það muni hvorki standa á mér né okkur í Flokki fólksins og ég býst við að allur þingheimur standi að baki ráðherra. Ég heyri að hæstv. ráðherra er farinn að gera sér grein fyrir því að það er þarna lyf sem er ekki ávanabindandi, sem veldur engum skaða en getur í raun og veru bjargað mannslífum. Það heitir Naloxone og við þurfum að fá það í lausasölu. Það er það sem liggur mér sérstaklega á hjarta núna, hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé að koma með reglugerð, það er í hans valdi akkúrat núna, til þess að setja lyfið í lausasölu og það strax.