Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

aðgerðir vegna ópíóíðafaraldurs.

[10:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Við vitum að 1. júlí 2022 var aðgengi að Naloxone, bæði hjá Rauða krossinum, Frú Ragnheiði og heilbrigðisstofnunum og öðru slíku. Það hefur ekki breytt þeirri skelfingu sem er að ganga yfir núna, engan veginn. Við erum alltaf eitthvað á eftir því sem gerist í löndunum í kringum okkur. Hér ríkir hreinlega neyðarástand og það liggur alveg á ljósu að enginn sem er að djamma er í raun í stakk búinn til þess að fara á heilbrigðisstofnun eða í Frú Ragnheiði eða eitthvað til að ná í þessa skaðaminnkun og koma í veg fyrir að hann deyi af þeim eituráhrifum sem hann verður fyrir með neyslu þessara ópíóíða. Við vitum líka að það eru eitruð lyf á markaðnum núna, búið að setja Fentanyl og eitthvað enn þá hættulegra í efnin sem gerir það að verkum að viðkomandi neytandi hefur nánast ekki hugmynd um hvers hann er að neyta og er í allt annarri trú um það (Forseti hringir.) sem hann er að innbyrða. Mig langar að bæta þessu við, hvort hæstv. ráðherra sé meðvitaður um það og hvað sé þá verið að gera í stöðunni.