Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

afglæpavæðing fíkniefna.

[10:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég læt mér þetta svar nægja í bili a.m.k., en spyr þá hæstv. ráðherra út í ummæli formanns Læknafélags Íslands, Steinunnar Þórðardóttur, sem segir í samtali við Morgunblaðið eða mbl.is að ný áætlun, heildstæð áætlun svokölluð, um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins til ársins 2030, sé þunn og þar komi lítið annað fram en áform um að klára byggingu Landspítala sem ætti ekki að koma neinum á óvart úr þessu; við sjáum húsin vera komin hátt yfir miðbæinn.

Hvenær er von á, ef einhver von er til staðar, að áætlun birtist um raunverulegar kerfisbætur í heilbrigðiskerfinu? Eins og margir hafa bent á, t.d. fyrrverandi landlæknar, er endalaust hægt að auka framlög til heilbrigðiskerfisins en ef þú lagar ekki kerfið sjálft þá gerir það ekkert gagn.