Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

aðgerðir vegna fíkniefnavanda.

[10:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að taka upp og halda áfram með þá umræðu sem við verðum að eiga hér um þann vanda sem er að birtast okkur, þessar bráðaaðstæður, þar sem horfir sífellt til verri vegar. Við erum að horfa á þetta sem alþjóðlegt vandamál og því miður er þessi þróun víða að gerast eins og við sjáum hér síðasta áratuginn; það er eitthvað að brotna upp í samfélaginu. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það eru mjög oft flóknar orsakir, oft og tíðum félagslegs eðlis, sem liggja að baki. Þess vegna þurfum við að gera margt þegar kemur að stuðningi og meðferð við fíknisjúkdómum og sérstaklega þegar við erum að ræða þennan skelfilega ópíóíðafaraldur þar sem sterk efni eru á ferð.

Við þurfum fjölbreytt úrræði og afglæpavæðing kann að vera eitt af þeim. Við höfum einhvern veginn ekki náð sátt um það hvernig því yrði fyrir komið í lögum, hvorki hér á þingi né í þeim starfshópi sem allir aðilar hafa verið þátttakendur í. Í gegnum samtalið í þeim hópi hefur það birst mér að við þurfum að takast sameiginlega á við þetta verkefni. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það leysir engan vanda að horfa á þetta sem einhvers konar glæpi. Við erum að hjálpa fólki, sjúku fólki. Það er kjarninn í þessu. Ég trúi því að einhvers konar sameiginleg sátt náist þvert yfir um að nálgast verkefnið þannig, án þess að við þurfum að fara í einhverjar skilgreiningar á því hvað eru neysluskammtar og hvað ekki.