Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

aðgerðir vegna fíkniefnavanda.

[11:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég vil bara byrja á því að ítreka að þetta hvílir þungt á okkur öllum. (BLG: Gerum þá eitthvað … ) Ég er búinn að fara yfir í andsvörum við aðra hv. þingmenn að það er fjölmargt sem við erum að vinna með og gera til að styðja fólk og hjálpa því í gegnum þennan skelfilega sjúkdóm, bráðdrepandi sjúkdóm þegar kemur að hættulegum efnum, fjölmörgum morfíntengdum lyfjum. Afglæpavæðingin ein og sér leysir ekki þennan vanda, eins og hv. þingmaður sjálfur fór svo réttilega yfir, kringumstæðurnar eru bara miklu flóknari en svo. Við þurfum að horfa á þetta í heild sinni í skaðaminnkandi úrræðum. Afglæpavæðing í sinni einangruðu mynd varðandi það að við séum ekki að refsa fólki er hluti af því, ég er alveg sammála. Hvernig við útfærum það, það hefur hins vegar reynst okkur flókið og það er miður. (Forseti hringir.) Ég vildi svo sannarlega að ég gæti leyst það bara einn og sér og við höfum margrætt þetta hér og tekið það í gegnum þingið. (Forseti hringir.) Það má hins vegar ekki verða til þess að við séum að rífast um (Gripið fram í.) þetta eða kljást um einn einangraðan þátt, við þurfum að gera fjölmargt. (Forseti hringir.) Það hef ég viðurkennt í þessum ræðustóli og við erum í þeirri vinnu. Við ætlum að taka höndum saman um það. (BLG: Gerum þá eitthvað í því.)