Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

áætlun um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins.

[11:02]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Líkt og aðrir hér í dag beini ég fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra. Ríkisstjórnin kynnti nýlega það sem hún kallar heildstæða áætlun um uppbyggingu innviða í heilbrigðiskerfinu til 2030. Ofboðslega stórt nafn sem fjallar um að það á að byggja nýtt hús. Það er mikilvægt að byggja nýtt hús því spítalinn er jú löngu kominn á tíma. Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, segir þó um þessa áætlun ríkisstjórnarinnar með langa nafnið, með leyfi forseta: „Þarna er ekki talað um neina aðra þætti en steinsteypuna við Hringbraut, að það eigi að klára þetta hús.“ Hér birtist aftur óþægilega skýrt að eftir sex ára setu er stefnan engin og staðan í dag er sirka þessi: Fólk sem þarf á þjónustu heimilislæknis að halda hér á höfuðborgarsvæðinu fær að heyra að næsti lausi tími sé í september. Fólk er spurt hvort það sé nokkuð í brýnni neyð. Heilsugæslan er orðin bráðaþjónusta. Hundrað prósent viðsnúningur frá orðum ríkisstjórnarinnar um að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaður. Á landsbyggðinni eru svæði sem er útlit fyrir að verði heimilislæknislaus. Amma og afi liggja inni á Landspítala því hjúkrunarrými eru ekki til. Börn eru á biðlistum í mörg ár. Spítalinn þarf að taka við öllum vegna þess að aðrir angar kerfisins geta ekki tekið við fólki. Fólk sem ekki kemst til heimilislæknis eða á hjúkrunarheimili fer á bráðamóttökuna þar sem það situr og bíður.

Formaður Læknafélagsins talar svo um starfsfólkið, hjartað í heilbrigðiskerfinu. Hvort sem við lítum á sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga eða lækna er engin stefna um það hvernig eigi að tryggja að nýja húsið verði mannað. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að hjúkrunarfræðingar hætti störfum vegna álags eða hvetur til þess að sérfræðilæknar velji að koma heim úr námi. Biðlistar eru í dag helsta einkenni heilbrigðiskerfisins, biðlistar eftir heilbrigðisþjónustu og biðlistar lækna eftir því að fá samning við ríkið. Hvað segir hæstv. heilbrigðisráðherra um þessi orð formanns Læknafélagsins? Hefur hún á réttu að standa?