Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

Áætlun um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins.

[11:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Eftir sex ára valdatíð þessarar ríkisstjórnar þá verðum við að gera aðrar og meiri kröfur til hæstv. heilbrigðisráðherra en að hann komi hér upp trekk í trekk til að lýsa stöðu, til að lýsa vanda, til að tala um brekkur, til að tala um áskoranir. Við erum að lýsa eftir svörum og stefnu. Það virðist ekki skipta máli hver málaflokkurinn er; vímuefnavandi, öldrunarþjónusta, heimilislæknar, samningar við sérfræðilækna, sálfræðiþjónusta, geðheilbrigðismál, það er bið, bið, bið, vegna þess að það er bið á svörum, bið eftir stefnu.

Hæstv. ráðherra talar hér um að það þurfi langtímahugsun. Það er alveg rétt, hún er bara ekki til staðar. Það þarf líka einhver svör um það hver svörin eiga að vera til skemmri tíma, hver svörin eru gagnvart því fólki sem kemst til heimilislæknis í september. Hvar eru svörin?