Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[11:26]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að hún hafi komið raunverulega inn á kjarnann; við getum gefið okkur að nánast hver einasti almenni borgari sem kemur að þessum texta sé að koma honum í fyrsta skipti og muni þess vegna þurfa talsverðan tíma til að setja sig inn í það hvernig beri að túlka ýmis atriði, hvernig eigi að lesa úr þeim og hvaða úrræði séu í boði, hvaða rökstuðningur þurfi að fylgja og hvernig eigi að leggja slíka kæru fram svo hún geti haft einhver áhrif. Ef við viljum raunverulega að það sé haft eitthvert samráð við almenning þá þurfum við sem stjórnvald að horfa til þess hvort almenningur hafi einhverja raunverulega möguleika á að hafa áhrif á það sem fram fer, hvort sem það er lagasetning eða veiting leyfa. Ef slík aðkoma er í raun eingöngu í því formi að það sé tekið við erindi, það sé hlustað á það og svo ekkert gert við það, þá er það ekki samráð. Samráði þarf að fylgja einhver raunverulegur möguleiki til að hafa áhrif á það sem gerist. Það er allt of oft þannig á Íslandi að samráðið veitir almenningi engan raunverulegan möguleika til að hafa áhrif. Og eitt af lykilatriðunum í því að almenningur geti haft áhrif er að fresturinn sé fullnægjandi þannig að fólk geti kynnt sér málin og lagt fram vel rökstudda og ígrundaða kæru.