Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:07]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Eins og ég vék að í andsvari hérna áðan þá var töluverð áskorun að reyna að setja sig inn í efni frumvarpsins þar sem það fer svolítið mikið út um allt, virðist vera hálfgerður bandormur sem þvælist í alls konar lagabálka og ef maður flettir þeim upp á vef Alþingis er ekkert endilega víst að þar sé um endanlega útgáfu skjals að ræða. Þetta er því pínulítið flókið. Eins og ég vék líka að í andsvari þá er hægt að fá lánaða dómgreind í umsögnum og þær gefa nokkuð skýrt til kynna hvað er á ferðinni. Hér erum við einfaldlega ekki að bregðast við með fullnægjandi hætti. Það er eiginlega varla annað hægt en að taka undir það að hér hefði hreinlega þurft að staldra við og endurskoða löggjöfina, taka þetta fyrirkomulag til gagngerrar endurskoðunar, enda eru mýmörg dæmi þess hverjar afleiðingar sjókvíaeldis eru. Þær eru alls ekkert alltaf afturkræfar. Það hefur víða orðið stórskaði á lífríki fjarða þar sem sjókvíaeldi hefur verið stundað. Ekki virðist vera gætt að hagsmunum almennings og náttúrunnar í frumvarpinu heldur fyrst og fremst hagsmunum þeirra sem vilja stunda þetta sjókvíaeldi.

Það blasir líka eiginlega við að frumvarpið tekur ekki á þeim kvörtunum og ágreiningi sem er um þetta við Eftirlitsstofnun EFTA, eftirlitsstofnun EES-samningsins, og mun því kalla á frekari deilur. Ég er eiginlega alveg handviss um að ekki sé algengt að almenningur geti brugðist við á viku, sem er sá frestur sem þetta frumvarp veitir almenningi til að koma að athugasemdum og kærum.

Svo velti ég fyrir mér, þótt þarna sé heimild til að framlengja um eitt ár, hvað ef þá er komin önnur umsögn sem er líka gölluð? Þá verður kannski orðið til einhvers konar keðjuverkandi bráðabirgðaleyfi þar sem ófullnægjandi umhverfismat og ófullnægjandi umsagnir verða þess valdandi að þetta getur staðið árum saman. Þá erum við komin með ástand sem er ekkert endilega afturkræft.

Hér er bara hagsmunum almennings og náttúrunnar ekki nægilega vel fyrir komið. En það er kannski mjög viðeigandi að þetta fjalli um bráðabirgðaráðstafanir því að miðað við þann ásetning sem sjá má í þessu frumvarpi virðist vera álitið sem svo að náttúra fjarðanna sé einfaldlega til bráðabirgða, vegna þess að þetta eru ekki afturkræfar framkvæmdir. Þegar búið er að hækka sýrustig fjarðanna þannig að skeldýr og þörungar þrífast ekki lengur þar þá mun það ekki gerast á okkar ævi að lífríkið nái sér. Þess vegna finnst mér algjörlega óskiljanlegt að við ætlum að stíga svona skref sem veita framkvæmdum sem eru stórskaðlegar einhverja sérstaka undanþágu frá því að fara í lögformlegt ferli. Það er eiginlega alveg óskiljanlegt.