Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:26]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má alveg orða það þannig að vikan sé til bóta. En er það rétta leiðin þegar við viljum vanda til verka og sjá til þess að við getum t.d. farið að ákvæðum Árósasamningsins og gefið almenningi það rými sem hann þarf til að kynna sér málin? Athugum það líka að þótt niðurstaðan sé kæranleg þá vitum við öll að það er umhendis að kæra. Í raun og veru er það þrautavarinn. Þó svo að náttúruverndarsamtök á Íslandi séu tiltölulega öflug þá finnst mér við ekki eiga að gera ráð fyrir því að kæruleiðin sé einhvern veginn sú leið sem verði farin hvort eð er, ég get orðað það þannig. Það er betra að gefa ríflegri umsagnarfrest og gefa almenningi fyrr færi á þátttöku í ferlinu svo að það fari ekkert á milli mála hverjar athugasemdirnar eru og að hægt sé að taka tillit til þeirra þannig að þetta endi ekki með úrskurði, yfirleitt löngu seinna, frá úrskurðarnefndinni. Auðvitað er vika til bóta en vika er afskaplega stuttur tími þegar kemur að umhverfismálum þó að hún kunni að vera langur tími í pólitík.