Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:28]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég kem hingað upp rétt til að gera grein fyrir minni afstöðu. Ég er ein þeirra þriggja þingmanna sem eru á nefndaráliti minni hlutans með breytingartillögu. Afstaða mín til málsins er einfaldlega sú að það sé ekki hægt að líta fram hjá forsögu málsins og hvernig þetta mál er hingað komið. Búið er að fara rækilega yfir það hér áður. Mér finnst þeir hagsmunir sem liggja undir vera annars vegar hagsmunir umhverfis og hins vegar réttur almennings til þess að staðið sé faglega að ákvörðunum og það sjónarmið að umhverfismat eigi að vera krafan fyrir þeim leyfum sem hér er fjallað um.

Hér er verið að ræða málsmeðferðartímann og ég held að það megi nú segja, án þess að farið sé með ýkjur, að þessi vikulangi frestur sé einfaldlega mjög á skjön við það sem tíðkast í stjórnsýslunni allri þegar reynt er að koma því til leiðar með virkum og raunverulegum hætti að almenningur fái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í því samhengi er ein vika eitthvað sem ég held að megi kalla málamyndagjörning. Þarna er í reynd ekki verið að færa almenningi neinn raunverulegan kost á að koma sjónarmiðum á framfæri og allt í þeim breytingum finnst mér bera með sér og lykta af því að hér eigi að skerða en ekki auka. Af þeirri ástæðu er ég á þessu áliti minni hlutans. Hagsmunirnir hér undir eru einfaldlega svo veigamiklir, hagsmunir umhverfisins sjálfs og hagsmunir almennings. Ég set svo spurningarmerki við þau vinnubrögð að fara með þessum hætti að lagasetningu þegar fyrir liggur skýr úrskurður ESA, að þá sé farin sú leið að ætla að föndra sig einhvern veginn út úr vandanum.