Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hafnalög.

712. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum.

Frumvarpið felur í sér breytingar á hafnalögum til innleiðingar á reglugerð (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir í íslenskan rétt.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Nefndin fjallaði um undanþáguákvæði áðurnefndrar Evrópureglugerðar en bent var á að í henni væri að finna ákvæði sem heimili ríkjum að ákveða að reglugerðin gildi ekki um hafnir við sjó sem staðsettar séu við ystu svæði samkvæmt 349. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og væri rétt að skoða hvort það ætti við um íslenskar hafnir. Nefndin tekur undir þau sjónarmið ráðuneytisins sem koma fram í 5. kafla greinargerðar frumvarpsins hvað þetta varðar og telur ákvæðið ekki eiga við um íslenskar hafnir.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu: Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar samráð um gjaldtöku. Fram kemur í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins að höfnum innan samevrópska flutninganetsins sé skylt að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtöku sína. Í íslenskri þýðingu reglugerðarinnar er hins vegar kveðið á um skyldu til samráðs um gjaldtökustefnu. Við umfjöllun um málið kom fram að frumvarpið gengi lengra en ákvæði reglugerðarinnar að þessu leyti. Nefndin tekur undir það og bendir á að frumvarpinu er ekki ætlað að ganga lengra í innleiðingu en þörf krefur. Leggur nefndin því til breytingu þess efnis að höfnum verði skylt að hafa samráð um gjaldtökustefnu sína, þ.m.t. vegna umtalsverðra breytinga á gjaldtökunni. Sama efnislega breyting er lögð til á reglugerðarheimild ráðherra í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Nefndin bendir á að upptaka hafna á álögum og afsláttum á skipagjöld samkvæmt frumvarpinu telst vera umtalsverð breyting á gjaldtöku og yrði því samráðsskyld samkvæmt ákvæðinu.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar gjaldtöku hafna með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags, sbr. 2. gr. Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins verður heimilt að gjaldskrár hafnar með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags taki mið af umhverfissjónarmiðum með vísan til orkunýtni eða kolefnisnýtni siglinga. Samkvæmt 3. gr. mun hið sama gilda um hafnir sem ekki teljast til opinbers reksturs. Í minnisblaði ráðuneytisins um málið kemur fram að 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands setji þeirri umhverfismiðuðu gjaldtöku sem lögð er til í frumvarpinu miklar skorður. Ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Í því felst að ekki sé heimilt að framselja ákvörðunarvald um skattlagningu til stjórnvalda eða sveitarfélaga. Leggur nefndin því til að 2. gr. falli brott en beinir því til ráðuneytisins að taka ákvæðið til endurskoðunar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem koma fram í nefndarálitinu og minnisblaði ráðuneytisins.

Þá er í þriðja lagi lögð til breyting er varðar gjaldtöku hafna með hafnarstjórn sem telst ekki til opinbers reksturs. Nefndin bendir á að þær hafnir teljast ekki til opinbers reksturs og því eigi þau sjónarmið sem áður voru nefnd ekki við um þær hafnir. Þrátt fyrir það leggur nefndin til orðalagsbreytingu á ákvæðinu. Umhverfisstofnun benti á að orðalag frumvarpstextans virðist ekki vísa til umhverfissjónarmiða almennt heldur eingöngu atriða sem lúta að orkunýtni eða kolefnisnýtni. Nefndin leggur til breytingu á orðalagi ákvæðisins þannig að heimildir til gjaldtöku hafna sem falla undir 20. gr. hafnalaga verði betur afmarkaðar. Nefndin telur rétt að í slíku ákvæði komi fram á grundvelli hvaða sjónarmiða afslættir eða álögur á hafnargjöld eigi að byggjast. Leggur nefndin því til breytingu þess efnis að í ákvæðinu verði kveðið á um heimild hafna sem falla undir 20. gr. til þess að taka mið af árangri í umhverfismálum, orkunýtni eða kolefnisnýtni í siglingum. Afslættir og álögur á gjöld sem tak mið af umhverfisframmistöðu skipa skuli byggjast á umhverfisvísitölu sem Samgöngustofa viðurkennir. Álag á hafnargjöld samkvæmt ákvæðinu skuli að hámarki nema 75%. Gert verði ráð fyrir því að við viðurkenningu Samgöngustofu verði litið til þess að notkun vísitölunnar hafi viðurkenningu, t.d. frá flokkunarfélagi með tilliti til markmiða um árangur í umhverfismálum, orkunýtni eða kolefnisnýtni. Leggur nefndin til að ráðherra verði heimilt að kveða á um nánari skilyrði fyrir viðurkenningu slíkrar vísitölu með reglugerð.

Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Andrés Ingi Jónsson, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson, Orri Páll Jóhannsson, Viðar Eggertsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þetta er kannski ekki mjög umfangsmikið eða stórt mál, en þetta getur skipt máli. Mér finnst mikilvægt að koma inn þessum umhverfissjónarmiðum hvað varðar heimildir hafna til að leggja á mismunandi gjöld eftir því hvernig skipin eru útbúin. Þá er ég sérstaklega að hugsa til skemmtiferðaskipa þar sem þau koma við víða í höfnum. Ég þekki til, eins og fyrir vestan, að þau koma inn og þetta eru mjög stór skip sem nærri því má segja að yfirtaki byggðina í þröngum firði og þau eru misjafnlega búin hvað vélarafl og útblástur snertir. Það á oft við um eldri skip að þau menga meira en þessi nýrri og á meðan tíminn og tæknin vinnur með því að það komi betri og öflugri skip sem eru með betri búnað og ganga jafnvel kannski fyrir raforku í framtíðinni þá er hér hægt að leggja álögur á þessi skip sem er þá hvati til þess að gera betur í þeim efnum. En að þessu sögðu legg ég málið hérna fyrir þingið.