Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[13:35]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því í nefndaráliti meiri hlutans að lagt er til að fella burt viðmiðið um brúttótonn. Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé hugsanlega svolítið bratt farið vegna þess að það skiptir máli hvernig bátarnir eru útbúnir. Ef þessi takmörkun er alveg horfin, hvað stoppar þá framleiðendur í að gera bátana breiðari, dýpri? Þeir væru þá ekkert endilega góð sjóskip en myndu mögulega geta afkastað meiru við ákveðnar aðstæður. Það eru til söguleg dæmi um akkúrat takmarkanir á lengd skipa en þá urðu til skip sem voru einfaldlega mjög óhagstæð. Þau voru bara hækkuð og ristu mun dýpra og urðu þess vegna mjög slæm sjóskip en hagkvæm út frá rekstrarfræðilegu sjónarmiði. Ég er að velta því fyrir mér hvort þetta hafi verið hugsað alveg til enda, hvort þetta gæti ekki verið fullbratt.