Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[13:39]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það þarf kannski líka að hafa í huga að mögulega myndu ekki eingöngu innlendir aðilar byggja báta sem eru nýttir hérna heldur gætu það verið aðilar út um víðan heim og við náttúrlega vitum ekkert um viðmið þeirra aðila, hvort þau skip sem eru framleidd í Suður-Evrópu eða við Miðjarðarhaf séu útbúin við annan raunveruleika en er að finna hér. Þannig að ég velti því fyrir mér hvort það hefði ekki mögulega þurft að setja í það minnsta reglugerðarheimild til að geta þá brugðist við ef við fáum einhver slík skip sem yrðu mjög óheppileg til sjóreksturs á Íslandi, nú eða þá að setja einhverjar aðrar hvaðir sem væri hægt að grípa til ef þetta fer á þann veg að það verði óheppilegt, þó að ég skilji alveg um hvað málið snýst. Það er ljóst að skip útbúið rafhlöðum verður mun þyngra en skip sem eru drifin áfram af hefðbundnum dísil- og steinolíuvélum. Það er enginn vafi á því að það þarf að bregðast við þeim veruleika en við þurfum líka að vera til búin að bregðast við öðrum veruleika ef hann kemur upp. Það þarf að vera hægt að tryggja að þau skip sem hér sigla tryggi öryggi og sjóhæfni og standist þær kröfur sem við viljum gera hér.