Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[13:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara ítreka það hér að það er ekki miðað við brúttótonn að hámarki í öðrum útgerðarflokkum, þannig að því sé bara haldið til haga. Við fengum einmitt aðila fyrir nefndina sem eru m.a. að smíða skip erlendis, ekki bara hér á Íslandi, svo að það sé sagt. Það er jú talsvert fyrirtæki að ætla sér að fara í þessi orkuskipti og ekki endilega eitthvað sem menn hlaupa í á morgun eða hinn, jafnvel þótt það yrði að lögum, þetta er eitthvað sem tekur tíma. Ég ætla því að leyfa mér að halda því fram að íslenskir útgerðarmenn sem út í þetta leggja og eru í þessum krókaaflamarksveiðum séu nú skynsamari en svo að þeir fari að láta smíða fyrir sig báta sem eru óheppilegir til reksturs hér á Íslandi. Ef það myndi koma upp held ég að það yrði bara að taka á því. Ég hef bara afskaplega takmarkaða trú á að það geti gerst. Við höfum auðvitað alltaf tækifæri til breytinga ef við myndum standa frammi fyrir slíku. Þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að bátar sem verða smíðaðir undir þessari löggjöf verði þess eðlis að þeir verði ekki góð sjóskip. Þetta er mikil fjárfesting og menn hljóta að leggja sig fram um að fá báta sem eru öruggir og eru góðir á sjónum.