Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):

Frú forseti. Já, hér erum við komin til að ræða hið fyrsta af þremur orkuskiptafrumvörpum sem koma í tengslum við sjávarútveginn. Því miður er það þannig að þó svo að það sé nú hægt að fagna því að ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra séu að reyna að hefja skrefin í átt að orkuskiptum þá fara þessi frumvörp sem hér eru komin til 2. umr. frá því að vera hreinlega nýju fötin keisarans yfir í að vera frumvörp sem eru mjög hættuleg umhverfinu. Það er því miður þannig að það er verið að reyna að gera einhverjar breytingar sem hafa ekki verið hugsaðar alveg til enda.

Við horfum t.d. á þetta ákveðna frumvarp sem við erum að ræða um hér, sem fjallar um krókaaflamarksbáta og það að leyfa bátum sem eru styttri en 15 m, sem falla undir krókaaflamarksveiðar, að því skilyrði að þeir noti að lágmarki helming vistvæna orkugjafa. Þá er einmitt ágætt að byrja á því að skoða hvað það raunverulega þýðir. Jú, fyrst þurfum við kannski að skoða það hvað sé vistvænn orkugjafi. Eitt af því sem kom fram í umsögnum, umsögn Ungra umhverfissinna, ef ég man rétt, var að það var í rauninni ekki gerð krafa í frumvarpinu um að orkugjafarnir sjálfir væru vistvænir. Þegar þetta var rætt við ráðuneytið og innan nefndarinnar þá virtist gæta þess misskilnings að það einhvern veginn ætti að þurfa að vera í þessu frumvarpi, eða ráðuneytið eða eitthvert annað ráðuneyti að skilgreina hvað eru vistvænir orkugjafar og upprunavottorð og ég veit ekki hvað og hvað. En sannleikurinn er sá að það er löngu búið að skilgreina hvað er t.d. grænt vetni og hvað er grátt vetni. Munurinn á þessum tveimur hlutum er að annars vegar er vetni búið til með því að nýta endurnýjanlega orku, eins og t.d. íslenska rafmagnið, en grátt vetni er t.d. búið til með því að nota jarðefnaeldsneyti til þess að framkvæma þau efnaskipti að búa til vetnið. Það sama gildir fyrir aðra orkugjafa. Við getum líka ímyndað okkur að það væru rafhlöður í bátunum og við settum dísilrafstöð til að hlaða þær. Það væri ekki mjög umhverfis- eða vistvæn framkvæmd að gera slíkt. Ég held að allir sjái það. Það sama gildir ef þetta er vetni sem er framleitt með því að brenna dísil eða einhverri annarri olíu.

Það sem við erum að segja hér er að þeir sem eiga svona báta megi fá ákveðin leyfi til að vera í krókaveiðinni ef þeir nota vistvæna orkugjafa. Þá þurfum við að hugsa hvernig við ætlum að sjá til þess að einhver setji ekki bara t.d. eina litla rafmagnsvél og einhver batterí um borð í bátinn, en hlaði þau svo aldrei og noti þau aldrei, heldur sigli bara áfram á dísilolíu og sé þar með búinn að fá leyfið, fá hlutina, en sé í rauninni ekki að gera neitt til að bæta umhverfið. Þetta ræddum við hvernig væri hægt að framkvæma en því miður urðu ekki breytingar á frumvarpinu þess efnis að reyna að laga þetta.

Það var líka þannig að ég óskaði innan nefndarinnar eftir minnisblöðum frá ráðuneytinu varðandi ýmsa hluti tengda þessum reglum og þessu frumvarpi. En því miður voru svörin frá ráðuneytinu mjög rýr. Ég spurði t.d. um hvort það hafi verið gerð lífsferilsgreining á kolefnislosun í samanburði við önnur skip. Þetta er nýtt orð sem við þurfum að læra en það er þá að horfa á ferlið alveg frá a til ö og átta sig á því að við séum ekki bara að flytja til hvar kolefnislosunin á sér stað. Það eru mýmörg dæmi um það nefnilega að fólk eða fyrirtæki séu að reyna að gera eitthvað sem kemur síðan í ljós að orsakar í rauninni meiri kolefnisútblástur en gamla aðferðin. Frægt dæmi um þetta seint á tíunda áratug síðustu aldar var veitingakeðjan McDonald's í Svíþjóð sem fór í að sortera allt, allan mat, alla afganga, alla kassa, allt þetta, en svo, vegna þess að endurvinnsla á mismunandi hlutum var þvers og kruss yfir landið þá var verið að keyra með hlutina Svíþjóð þvera og endilanga á dísilbílum sem blésu út meiri koltvísýringi heldur en ef olíu hefði verið hellt yfir pappann og annað fyrir utan McDonald's og kveikt í. Þetta er lífsferilsgreiningin: Þú losar minna ef þú kveikir bara í þessu fyrir utan McDonald's frekar en að keyra þetta um hálft landið.

Það sem við þurfum nefnilega líka að hugsa út í er, og við vorum nú einmitt að ræða hér áðan fyrir hlé hafnalög, að við erum ekki komin með innviðina til að sinna þessu. Ef við ætlum að vera með báta sem eru knúnir rafmagni þá er eins gott að rafmagnið sé til í höfnunum. Það dugir ekki að það sé einhver svona heimahleðsla, þ.e. örfá kílóvött, vegna þess að ég tel að sjómennirnir vilji ekki þurfa að bíða í 10–12 tíma eftir því að báturinn hlaðist áður en hann fer í það að geta farið út aftur. Margir þeirra sofa ansi lítið þessa örfáu daga sem þeir mega veiða.

Þannig að við erum ekki búin að hugsa út í innviðina, flutningana, geymsluna á græna vetninu, geymsluna á græna metaninu og allt þetta. Hvernig ætlum við að flytja það á milli landshluta? Við hefðum þurft að fara í miklu meiri vinnu við að skoða alla þessa hluti og samræma þá, tryggja að í innviðaráðuneytinu sé verið að vinna með höfnunum, með sveitarfélögunum, með þeim sem ætla að framleiða þetta. Þó að það sé rosa fínt og rosa gott að geta sagt að við séum farin af stað með orkuskipti í sjávarútvegi þá verður að vera eitthvað raunverulegt þar á bak við.

Hér var rætt áðan um stærðir af bátum og ég held að við í atvinnuveganefnd höfum lært meira um bátahönnun en við höfum nokkurn tímann gert um mörg önnur atriði í þeirri vinnu. Það sem kom mér eiginlega mest á óvart var að ég hélt að það væri verið að tala um þyngd og slíkt þegar var verið að tala um brúttótonn. Nei, þetta eru ekki hin evrópsku brúttótonn. Þetta eru ekki hinar alþjóðlegu skilgreiningar á brúttótonnum heldur er þetta séríslenskur útreikningur á því hvað brúttótonn er. Það er ekki eini séríslenski hluturinn sem við eigum eftir að rekast á í dag. Ég held að við þurfum að reyna að passa okkur í framtíðinni á að vera ekki að búa til hluti sem eru algerlega séruppfundin fyrirbæri sem flækja síðan að fólk geti skilið um hvað er verið að tala.

Það er mjög erfitt að segja til um það hvort þetta frumvarp muni yfir höfuð hafa nokkur jákvæð áhrif á orkulosun í sjávarútvegi. Það fer allt eftir því hvaða tegundir af eldsneyti eru valdar, hvort þær eru búnar til með grænum leiðum, eftir því hvort við byggjum upp innviðina sem þarf til að hafa þær. Allt eru þetta hlutir sem hefði þurft að taka á og vinna betur í ráðuneytinu áður en þeir komu hingað inn. Ég hefði helst viljað að við hefðum þann valkost að vísa ekki til ríkisstjórnar heldur bara vísa aftur í ráðuneytið og segja: Vinnið betur, vegna þess að þetta er alls, alls ekki nógu vel hugsað. Við þurfum að gera betur vegna þess að það sem skiptir máli er ekki það að geta tékkað í eitthvert box og sagt að hér séum við byrjuð, eða hér séum við í orkuskiptum, heldur skiptir máli fyrir börn okkar og barnabörn að við séum að gera raunverulega hluti sem draga úr kolefnislosun en eru ekki bara falleg prik á blaði fyrir einhverja ráðherra til að segja: Ég er búinn.