Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:02]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tímabundinna undanþága frá skipulags- og byggingarlöggjöf sem og skipulagi. Frumvarpið er liður í samhæfingu aðgerða stjórnvalda vegna málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd og hefur það að markmiði að bregðast við bráðavanda í húsnæðismálum þess hóps sem stjórnvöld standa nú frammi fyrir. Staðan er sú að aldrei hafa fleiri komið til landsins á flótta en nú. Fjöldi þeirra frá 1. janúar í fyrra og fram í mars á þessu ári er orðinn meiri en samanlagður fjöldi allra umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi á sex ára tímabili, þ.e. 2016–2021. Frá áramótum hafa nú þegar komið 1.750 umsækjendur sem er hærri tala en árlegur heildarfjöldi umsækjenda var á tímabilinu 2016–2021. Árlegur heildarfjöldi var þá til samanburðar á bilinu 654–1.131 umsækjandi á ári hverju. Aldrei hafa fleiri sótt um alþjóðlega vernd á einu ári en í fyrra en þá var heildarfjöldi umsækjenda 4.495. Samkvæmt spá Útlendingastofnunar er gert ráð fyrir að fjöldi umsókna um vernd á þessu ári verði á bilinu 4.500–6.500 og yrði þá um að ræða mestan fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd á einu ári frá upphafi.

Á meðan umsækjendur um alþjóðlega vernd bíða niðurstöðu umsóknar dvelja þeir í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar. Um mitt ár í fyrra dvöldu um 700 umsækjendur í slíkum búsetuúrræðum en nú dvelja rúmlega 1.800 umsækjendur í húsnæði á vegum stofnunarinnar. Hefur því fjöldi umsækjenda í slíkum búsetuúrræðum nærri þrefaldast á tæpum níu mánuðum. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun má gera ráð fyrir að bæta þurfi við húsnæði fyrir um 100 manns á sjö til tíu daga fresti eða um 460 manns mánaðarlega. Skýrist það af því að fjöldi þeirra sem þurfa á húsnæði að halda á hverjum tíma er mun meiri en fjöldi þeirra sem fara úr húsnæðisúrræðum stofnunarinnar á hverjum tíma. Það bætist því sífellt í húsnæðisþörfina.

Samkvæmt spá Vinnumálastofnunar er gert ráð fyrir að um komandi mánaðamót þurfi stofnunin að hafa yfir að ráða húsnæði fyrir 2.884 manneskjur miðað við 80% nýtingu á húsnæði en 1. desember nk. verði þörfin á húsnæði orðin fyrir u.þ.b. 5.800. Jafnframt er fyrirséð að mati stofnunarinnar og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem fara með málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd að á komandi vikum og mánuðum muni ekki takast að tryggja nægilega mikið af hentugu íbúðarhúsnæði á leigu fyrir umræddan hóp. Því sé nauðsynlegt að stjórnvöldum gefist kostur á að nýta annað húsnæði, svo sem skrifstofuhúsnæði í eigu ríkisins, sem tímabundin búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Hér er m.a. horft til húsnæðis Hvíta bandsins við Skólavörðustíg og gamla Fæðingarheimilisins við Eiríksgötu. Þar sem slíkt húsnæði hefur ekki verið ætlað til búsetu þyrfti alla jafna að sækja sérstaklega um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húsnæðisins til búsetu og þyrfti sú notkun jafnframt að vera heimil á viðkomandi svæði samkvæmt aðal- eða deiliskipulagi hlutaðeigandi sveitarfélags eða viðeigandi breytingar gerðar á skipulaginu til að heimila slíka notkun.

Virðulegi forseti. Að mati stjórnvalda verður að bregðast þegar í stað við skorti á húsnæði fyrir þá sem koma hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd. Því er frumvarpi þessu ætlað að flýta fyrir að unnt verði að taka fyrrgreint húsnæði til notkunar eða sambærilegt sem tímabundin búsetuúrræði. Til að svo megi verða er lagt til að heimilt verði að víkja tímabundið frá almennum skilyrðum og ferlum skipulags- og mannvirkjalöggjafarinnar sem og skipulagi viðkomandi sveitarfélags til að heimila til bráðabirgða breytta notkun slíks húsnæðis til búsetu.

Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Með því er lagt til að Skipulagsstofnun verði fengin heimild til að veita undanþágur frá lögum um mannvirki, lögum um brunavarnir, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, skipulagslögum og þeim reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli umræddra laga, svo og frá skipulagi hlutaðeigandi sveitarfélags til að heimila breytta notkun húsnæðis sem tímabundins búsetuúrræðis. Hér er átt við húsnæði sem fyrir er á húsnæðismarkaði en ekki nýja húsnæðisuppbyggingu. Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun óski eftir slíkri undanþágu og óskað verði eftir umsögn hlutaðeigandi sveitarfélags sem hafi tvær vikur til að veita umsögn og gera athugasemd við veitingu undanþágunnar. Mæli sveitarfélag gegn veitingu undanþágu í umsögn sinni skuli Skipulagsstofnun synja undanþágubeiðninni.

Undanþága verði aðeins veitt að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum og óheimilt að taka húsnæði í notkun til búsetu fyrr en þau hafa öll verið uppfyllt: Í fyrsta lagi þarf vottorð vegna öryggis- og lokaúttektar húsnæðis að liggja fyrir þannig að það liggi fyrir að um fullklárað húsnæði sé að ræða sem uppfylli viðkomandi öryggiskröfur miðað við samþykkta notkun þess. Þar sem húsnæðið er í framhaldinu ætlað til búsetu er jafnframt lagt til að húsnæði þurfi að uppfylla viðeigandi kröfur um brunavarnir, um öryggi og hollustuhætti og það staðfest með sérstakri skoðun byggingarfulltrúa slökkviliðs og heilbrigðiseftirlits áður en húsið er tekið í notkun. Haft var samráð við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins við vinnslu frumvarpsins varðandi þær kröfur sem þar eru settar fram um brunavarnir. Lagt er til að sérstök brunahönnun skuli fara fram á húsnæðinu sem slökkviliðið þurfi að samþykkja. Slökkviliðinu verði þannig falið mat á því að brunavarnir séu fullnægjandi miðað við hina fyrirhuguðu notkun. Geta þar komið til sérstakar ráðstafanir, svo sem kynning á flóttaleiðum þegar flutt er í húsnæðið og öryggisgæsla. Gert er ráð fyrir að slökkviliðið geti leitað til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eftir nánari leiðbeiningum eða ráðgjöf um framkvæmdina eftir því sem þörf er á. Standi til að gera breytingar á burðarþoli, raflögnum eða öðrum lögnum, vatns- eða loftræstilögnum er einnig gert ráð fyrir að fara þurfi fram viðeigandi hönnun hvað þær breytingar varðar.

Með sama hætti er gert ráð fyrir að húsnæðið uppfylli samkvæmt mati heilbrigðiseftirlits viðeigandi kröfur um hollustuhætti miðað við fyrirhugaða notkun þess. Víkja megi þó frá einstökum skilyrðum, svo sem um fjölda handlauga í húsnæði. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir að heimilt verði að víkja frá skilyrðum um almennt öryggi samkvæmt 12. kafla byggingarreglugerðar. Áður en húsnæðið verður tekið í notkun þarf skoðun byggingarfulltrúa, slökkviliðs og heilbrigðiseftirlits hafa farið fram til staðfestingar á því að viðeigandi kröfur um öryggi, brunavarnir og hollustuhætti séu uppfylltar. Þá er einnig lagt til að húsnæði geti ekki verið á landnotkunarsvæði sem skilgreint er sem iðnaðarsvæði samkvæmt skipulagsreglugerð. Skýrist það af mengunarhættu sem getur verið til staðar á slíkum svæðum. Jafnframt verði hámarksfjöldi einstaklinga í hverju búsetuúrræði 250 manns en þó ekki meiri en húsrúm leyfir með tilliti til öryggis íbúanna. Hvað nærumhverfi varðar er lagt til að húsnæði þurfi að vera í nálægð við skóla sé búsetuúrræðið m.a. ætlað börnum. Einnig þurfi að lágmarki að uppfylla meiri hluta eftirfarandi fimm skilyrða um að húsnæði sé í fyrsta lagi í göngufæri við verslun og þjónustu, í öðru lagi í göngufæri við almenningssamgöngur, í þriðja lagi innan fjölbreyttrar og blandaðrar byggðar þar sem fjölbreytt þjónusta sé í boði, í fjórða lagi innan eða í jaðri íbúabyggðar og í fimmta lagi í göngufæri við friðsæl og heilnæm útivistarsvæði.

Ljóst er að það getur reynst nokkur áskorun að uppfylla meiri hluta þessara skilyrða á landsbyggðinni. Því er lagt til grundvallar að skilyrði um að húsnæði sé í göngufæri við almenningssamgöngur séu uppfyllt ef Vinnumálastofnun býður íbúum upp á sérstakan samgöngukost til að tengjast kerfi almenningssamgangna.

Lagt er til að í undanþágubeiðni skuli gerð grein fyrir þeim ákvæðum hlutaðeigandi löggjafar sem Vinnumálastofnun óskar eftir undanþágu frá. Þar skuli einnig gerð grein fyrir fyrirkomulagi lóðar, m.a. varðandi aðkomu, bílastæði, sorplosun, dvalarsvæði og öryggi barna og ungmenna á lóð og í nærumhverfi eftir því sem við á. Þá ber enn fremur að gera grein fyrir því hvaða starfsemi sé á lóðinni og/eða í viðkomandi húsnæði og rökstutt að búsetuúrræði og viðkomandi starfsemi geti farið saman í sama húsnæði og/eða á sömu lóð. Þess má þó geta að úttekt slökkviliðs á brunavörnum tekur einnig til þess hvort unnt sé að starfrækja búsetuúrræði í viðkomandi húsnæði í ljósi nærliggjandi starfsemi. Jafnframt er lagt til að koma skuli fram í undanþágubeiðninni hvort vatns- og fráveitukerfi muni anna þörfum að mati hlutaðeigandi veitufyrirtækis, sé það nýtt sem tímabundið búsetuúrræði.

Enn fremur er lagt til að Skipulagsstofnun hafi sjálfstæða heimild til að synja um undanþágu þótt framangreind skilyrði séu uppfyllt ef heildstætt mat á aðstæðum mælir gegn veitingu hennar. Áður en til synjunar komi skuli afla umsagnar viðeigandi stjórnvalda um þær aðstæður og sjónarmið sem liggja til grundvallar matinu. Telji stofnunin að synja beri um undanþágu skuli hún senda rökstudda tillögu um það til ráðherra til staðfestingar á synjun. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir að unnt verði að bera ákvörðun um veitingu undanþágu undir æðra stjórnvald heldur verður slík ákvörðun endanleg á því stjórnsýslustigi.

Þá er lagt til að viðkomandi sveitarfélagi beri að tilkynna lóðarhöfum og nágrönnum í grenndinni um breytta notkun viðkomandi húsnæðis til búsetu áður en það er tekið til notkunar þótt ekki sé gert ráð fyrir að hin breytta notkun verði grenndarkynnt.

Einnig er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun veiti slökkviliði nauðsynlegar upplýsingar um það fólk sem býr í húsnæðinu í því skyni að fyrir liggi réttar upplýsingar ef hætta steðjar að. Enn fremur er lagt til að slökkviliði verði heimill aðgangur að húsnæðinu til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til myndatöku. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra verði fengin heimild til að setja nánari fyrirmæli með reglugerðum um framkvæmd ofangreindra atriða, þar á meðal um kröfur til brunavarna, öryggis og hollustuhátta.

Virðulegi forseti. Lagt er til að heimild til að veita umræddar undanþágur verði tímabundin og falli úr gildi 1. júní 2025. Jafnframt er gert ráð fyrir að undanþága frá viðeigandi skilyrðum og ferlum skipulags- og byggingarlöggjafarinnar og eftir atvikum skipulagi hlutaðeigandi sveitarfélags verði aðeins veitt til bráðabirgða til 18 mánaða. Standi til að nýta húsnæðið lengur sem tímabundið búsetuúrræði beri innan þess tíma að hefja ferlið til að afla tilskilinna leyfa. Skulu þau leyfi liggja fyrir innan þriggja ára frá því að undanþága var veitt. Fáist ekki leyfi fyrir breyttri notkun húsnæðisins þannig að búseta verði þar heimil til frambúðar ber að rýma húsnæðið eigi síðar en þremur og hálfu ári frá því að undanþágan var veitt og láta af notkun þess til búsetu.

Samkvæmt mati á kostnaðaráhrifum frumvarpsins er talið að það muni ekki hafa bein fjárhagsleg áhrif. Þær breytingar sem þar eru lagðar til geta aftur á móti haft í för með sér afleiddan kostnað. Er það vegna þeirra breytinga sem gera þarf á umræddu húsnæði til þess að það uppfylli þau skilyrði sem sett eru í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að þær lagabreytingar sem hér hafa verið kynntar nái fram að ganga til að unnt sé að tryggja þeim húsnæði sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd. Að öðrum kosti þyrfti Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir að fara eftir hefðbundnu ferli til að sækja um heimild fyrir breyttri notkun húsnæðis til búsetu. Slíkt ferli tæki lengri tíma en sú leið sem lögð er til með frumvarpinu og þyrfti því að leita annarra húsnæðislausna í millitíðinni, svo sem með fjölgun fjöldahjálparstöðva og/eða með því að taka á leigu húsnæði sem hentar síður sem tímabundið búsetuúrræði. Ljóst er að þær ráðstafanir fælu einnig í sér umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.