Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú langar mig að velta upp tveimur atriðum, bara örstuttum. Í fyrsta lagi kom fram í fréttum á síðustu dögum að þetta frumvarp hefði farið tvisvar í gegnum ríkisstjórn vegna breytinga sem hafi orðið í kjölfarið á umræðu í þingflokkum stjórnarflokkanna. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að gera okkur grein fyrir því í hverju þær breytingar fólust. Í öðru lagi langar mig að spyrja, vegna þess að hæstv. ráðherra lagði til að málið gengi til velferðarnefndar, sem vissulega heldur utan um málaflokk fólksins sem á að nýta sér þetta úrræði. En þau fern lög sem hér er lagt til að breyta eru öll á málasviði umhverfis- og samgöngunefndar þannig að ég velti fyrir mér, ekki bara vegna þess að ég vilji að öll mál fari í mína nefnd heldur bara vegna þess að þar er venjulega fjallað um þessi lög, hvort þetta sé endilega rétt vísun af hálfu ráðherrans.