Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil í rauninni mælast til þess að þessar undanþágur verði nýttar í eins litlum mæli og mögulegt er. Það sé fyrst og fremst horft til svæða þar sem er einmitt blönduð byggð, svæða þar sem hefur kannski verið skrifstofuhúsnæði í nálægð við aðra byggð. Þegar við erum komin inn á athafnasvæði — nú þekki ég vel Sveitarfélagið Mosfellsbæ og þar er t.d. ekkert iðnaðarsvæði en þar er fullt af athafnasvæðum og það að fara að þróa íbúðarhúsnæði á slíkum svæðum er til lengri tíma mjög óæskilegt. Það tekur töluvert vald frá sveitarfélaginu og ég óttast svolítið þá pressu sem getur skapast í kjölfarið þegar aðilar eru búnir að fjárfesta í þessu húsnæði þannig að það sé auðveldast að fá arðsemina í gegnum það að leigja fólki og nota sem íbúðarhúsnæði á móti því að upphaflega var svæðið hugsað fyrst og fremst fyrir atvinnustarfsemi.