Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:29]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir framsöguna. Það er að sjálfsögðu þannig að við viljum í lengstu lög forðast að þurfa að setja fólk í fjöldahjálparstöðvar. Mig langaði aðeins koma inn á tvennt sem hæstv. ráðherra hefur nefnt nú þegar, annars vegar það að þetta fari inn í velferðarnefnd. Mér vitanlega fara ekki skipulagsmál skóla inn í allsherjar- og menntamálanefnd, rétt eins og að skipulagsmál spítala, held ég, fari ekki inn í velferðarnefnd þannig að ég hefði haldið að þetta ætti frekar að fara inn í umhverfis- og samgöngunefnd sem hefur reyndar miklu minna af málum á sinni könnu til að klára fyrir vorið heldur en hin hefur.

En mig langaði líka að heyra frá hæstv. ráðherra varðandi það hversu mikið liggur á að við klárum þetta mál. Nú er liðinn rúmur mánuður frá því að fyrst byrjaði að kvisast út að það færi að koma. Er ekki mikilvægt að þingið taki sér tíma í að skoða þessar miklu undanþágur? Á endanum er jú öryggi, heilsa og líf fólks mögulega í hættu ef við vinnum ekki vinnuna okkar nógu vel hér inni á þingi. Þannig að við þurfum ekki að klára þetta hratt heldur vinna það vel.