Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[14:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða það mál sem hér var á undan varðandi stærðarmörk krókaaflamarksbáta og orkuskipti sem þar er yfirskriftin. Ég ræddi þetta hér á þingi síðustu vikuna fyrir jól þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir þessu máli ásamt tveim öðrum sem lúta að fiskveiðistjórnarkerfi landsins. Ég lýsti þá yfir miklum áhyggjum af því sem þarna lægi undir varðandi tvö þeirra mála sem sneru að þessum stærðarmörkum krókaaflamarksbáta og því máli sem verður tekið til umræðu hér á eftir varðandi svokallaðan aflvísi hjá krókaaflamarksbátum, sem gengur út á að þeir megi vera með enn öflugri vélar og stærri skrúfur, og af öllu því sem myndi fylgja í kjölfarið, en mun ræða það í annarri ræðu.

Varðandi þetta mál og stækkun þessara krókaaflamarksbáta sem er boðuð í nafni orkuskipta — hver vill ekki orkuskipti? Er ekki allur heimurinn í því að reyna að gera allt sem hægt er til að skipta yfir í umhverfisvæna orkugjafa? En það er svolítið kúnstugt í þessu máli að þá skuli það vera gert með þeim hætti að kollvarpa því kerfi sem var byggt upp á árum áður, krókaaflamarkskerfið, sem gekk út á að það væri ákveðin stærð af bátum sem væri á krókaaflamarki og stærðin skipti máli. Þetta var hugsað til þess að það væru einhverjir möguleikar, líka fyrir einyrkja og minni útgerðir, að gera út báta á umhverfisvænum veiðum, ég tek það fram, á umhverfisvænum veiðum, og þeir væru þá ekki í stóra aflamarkskerfinu. En smátt og smátt hafa menn verið að reyna vitandi eða ómeðvitað að brjóta niður þetta kerfi með ýmsum hætti. Ég tel að það að hengja þetta saman, orkuskipti í smærri skipum og að stækka þessa krókaaflamarksbáta í skjóli þess, séu mjög mikil öfugmæli og mjög slæmt fyrir þá sem vilja efla smábátaflotann í landinu og koma í veg fyrir samþjöppun í greininni og styðja við byggðir landsins, að sem flestir hafi tök á því að vera með útgerðir smærri báta, að þetta safnist ekki allt á sömu hendur eins og þróunin hefur verið. Við þekkjum það alveg að samþjöppun hefur verið gífurlega mikil og stórútgerðin í aflamarkskerfinu hefur verið að kaupa upp útgerðir í krókaaflamarkskerfinu. Þetta er að færast til örfárra stórra útgerðaraðila sem eru komnir margir hverjir yfir það þak sem er miðað við í hlutdeild í aflamarki, því sem er gefið út, aflahlutdeild sem eru eitthvað um 12%.

Árið 2013 var leyft að stækka þessa krókaaflamarksbáta úr 15 brúttótonnum í 30 brúttótonn. Og til hvers leiddi sú stækkun? Það er hægt að sjá það bara með tölum frá þeim tíma að það leiddi til stórfelldrar fækkunar smábáta með aflahlutdeild og þar með minnkandi vægi einyrkja í útgerð. Landssamband smábátaeigenda hefur auðvitað verið það baráttuafl sem hefur barist gegn þessari þróun og mótmælti þessu harðlega, þessu frumvarpi sem þá kom fram 2013. Og núna mótmælir það sama félag smábáta í landinu sem samanstendur af 16 svæðisfélögum, að mig minnir, þessu frumvarpi sem er um orkuskipti og tengir það við að það megi stækka þessa krókaaflamarksbáta. Það er verið að tala um að stækka þá um 50%, úr 30 tonnum yfir í 45 brúttótonn. En til að kóróna allt saman telur atvinnuveganefnd að það sé ekki nægilegt að stækka upp í 45 brúttótonn heldur verði opnað algjörlega á það hve stórir þeir mega vera.

Þetta er auðvitað með ólíkindum og maður spyr sig bara: Vita menn hvert þeir eru að stefna í þessum efnum? Það er auðvitað verið að grafa algjörlega undan þessu krókaaflamarkskerfi og maður spyr sig bara, þær útgerðir sem vilja gera út stór skip með öllu sem því fylgir, fjölgun í áhöfn og fara lengra út á miðin og með allri hagkvæmni sem því getur fylgt, af hverju í ósköpunum eru þær að reyna að halda sig innan krókaaflamarkskerfisins? Af hverju eru þær ekki í aflamarkskerfinu? Það væri gott að heyra svör við því. En með þessu þá tel ég og fleiri að það sé verið að grafa undan krókaaflamarkskerfinu og það sé mjög erfitt að halda því gangandi og ég tala nú ekki um þegar lagt er til af hálfu nefndarinnar að það megi líka skoða að það verði möguleiki á að nota önnur veiðarfæri en þessi vistvænu sem hafa verið notuð á þessum krókaaflamarksbátum. Hvert eru menn að leiða þessa umræðu? Mega þessir bátar fara á dragnót og netaveiðar og nú togveiðar? Þá eru menn bara komnir á allt annan stað en upphaflega var gengið út frá með krókaaflamarkskerfið, kerfi sem væri mótvægi við þetta stóra kerfi, með umhverfisvæn veiðarfæri og fyrst og fremst hugsað fyrir smærri útgerðir einyrkja og væri til að styrkja byggð í minni sjávarplássum vítt og breitt um landið.

Það er líka mjög slæmt að það sé verið að reka þetta áfram svona í áframhaldandi samþjöppun í skjóli orkuskipta. Það er hægt að stuðla að og vinna að orkuskiptum með öðrum hætti og við vitum ekkert í dag hvað verður á endanum. Sú orka sem verður nýtt í smábátum og stærri skipum verður kannski ekki endilega sama orkan. Núna er í vísindasamfélaginu verið að skoða hvað hentar dagróðrabátum og hvað skipum sem hafa lengra úthald. Það var góð grein fyrir nokkrum mánuðum í Bændablaðinu þar sem var verið að fjalla um nýtingu á og hugsanlega framleiðslu á ammoníaki hér innan lands. Svo er auðvitað vetnið og rafeldsneyti og allt mögulegt þarna undir. Það er enginn kominn til með að segja hvað á endanum verður sem hentar dagróðrabátum eða þeim sem eru úti með lengra úthald og annað í þeim efnum. Það eru engir innviðir til staðar í dag og þeir byggjast örugglega upp í samræmi við það hvað vélaverkfræðin og skipatæknin og þróunin í þessum málum velur í þeim efnum, eins og varðandi t.d. bílaflotann. Á tímabili töldu menn að stór hluti væri að fara á metan. En það breyttist bara á örfáum misserum. Það er takmarkaður áhugi á því að einkabíllinn sé knúin metani og lítil eftirspurn eftir slíkum bílum eins og ég skil það. Menn horfa frekar til þess að kaupa rafbíla. Allt er óljóst hvernig þessi þróun verður.

Svo spyr maður sig líka, ef menn mega stækka bátana um helming og jafnvel hafa það algerlega opið: Hvernig verða þessir bátar varðandi stöðugleika og annað því um líkt? Enn þá er verið að tala um að þeir verði 15 metrar að lengd en megi bara stækka út í hið óendanlega. Þetta er einhvern veginn ekki alveg að ríma saman en vissulega eru bátar í dag, eftir að heimilt var að stækka þá í 30 brúttótonn, margir hverjir mjög sérstakir í laginu og ekki endilega gífurleg sjóhæfni hjá þessum bátum. Enn og aftur undirstrika ég það að það mega vera fleiri tegundir af útgerðum í landinu heldur en bara stóru útgerðirnar, ekki að allt sé að fara á sömu hendi þar sem fjármagnið er til staðar. Þar nýta menn það fjármagn og aðgengi að fjármagni til að kaupa upp þessa báta, sem hefur verið að gerast, og ég ætla ekki að nefna hvaða landsvæði eru að fara undir kannski. En menn sem þekkja til vita það alveg að það er verið að bjóða í báta hægri vinstri á þekktum útgerðarstöðum, þessa minni báta. Og þegar peningur er annars vegar er erfitt að neita því og þeir sem hafa peningana eru að kaupa upp fjölda krókaaflamarksbáta en eru stórir eigendur útgerða þar. Ég bara trúi ekki að meiri hluti atvinnuveganefndar sé ekkert að spá í því. Hvar eru byggðasjónarmiðin og hvar er vinstrimennskan og hvar er samfélagshugsunin þá hjá meiri hlutanum ef menn horfa ekkert í þetta?

Mér finnst mjög mikilvægt að þetta verði skoðað enn frekar í nefndinni og þar verði t.d. Hafrannsóknastofnun fengin og horft til þess hvaða breytingar þetta hefur í för með sér, líka varðandi aðra notkun á veiðarfærum, þá innan við 12 mílur, og líka að fá úttekt hjá Byggðastofnun á því hvaða samfélagslegu áhrif svona breytingar geta haft varðandi uppkaup og samþjöppun á krókabátum í krókaaflamarkskerfinu versus hvað hefur gerst frá 2013, hver þróunin verður og hvaða afleiðingar það hefur fyrir byggðirnar og eignarhald og annað á þessum bátum og hvar það eignarhald lendir. Líka í samræmi við það að þeir aðilar eiga þá orðið eignatengsl í alls konar útgerðum. En það virðist vera erfitt hjá löggjafanum að horfa til þess að draga það allt saman, hver raunveruleg eignatengsl eru og hve langt yfir kvótaþak viðkomandi aðilar eru komnir þegar þeir eru búnir að eignast kvóta, ekki bara í stóra aflamarkskerfinu heldur líka í krókaaflamarkskerfinu, hægri vinstri en eru kannski með þetta á þeim stað að eitt og sér er það ekki yfir kvótaþaki. En þegar þetta er allt lagt saman eru menn auðvitað komnir með aflaheimildir sem fara yfir það þak. Ég bara óska eftir því að þetta verði skoðað miklu betur með þeim annmörkum sem ég hef lýst hér.

Það eru auðvitað margir sem hafa haft áhyggjur af þessu, ekki bara Landssamband smábátaeigenda heldur bara einstaklingar sem stendur ekki á sama um hvernig kerfið í krókaaflamarkskerfinu er að þróast. Ég vísa, með leyfi forseta, í umsögn frá Kára Ásgrímssyni sem hefur gert út bát í 40 ár frá Borgarfirði eystri og þar segir, með leyfi forseta:

„Og svo að krókabátunum! Þar tel ég að samþjöppun aflaheimilda sé þegar orðin allt of mikil. Þetta er einfalt, stærri bátur þarf meiri aflaheimildir, það er óháð orkugjafa bátsins. Og því vara ég sérstaklega við tilslökun og stærð báta í krókaaflamarki og dreg það mjög í efa að stækkun báta leiði til minni losunar gróðurhúsalofttegunda.“

Þetta er svona eitt dæmi um það sem er bara þessi venjulegi einyrki, útgerðarmaður, sem er lýsandi fyrir áhyggjur manna í þessum efnum og ég held að það verði stundum að hlusta á þessa litlu þó að þeir hafi ekki alltaf hátt. En þeirra orð vega þungt og það er erfitt að snúa þeirri þróun við þegar hún er orðin þannig að þetta er komið á fárra hendur, þessar aflaheimildir í krókaaflamarkskerfinu, og í þágu góðs málstaðar í þessu tilfelli, að það sé verið að vinna að orkuskiptum. En ég held að það megi gera margt annað þangað til það verður raunverulega hægt að sýna fram á hvaða orkugjafi hentar og hvað þarf til þess. Þá er alltaf hægt að koma með einhverjar tilslakanir en þær þurfa ekki að vera bundnar við bátastærð, að það sé skilyrt að stækkun báta sé heimil sem er auðvitað bara til að ýta undir neikvæða þróun og samþjöppun í krókaaflamarkskerfinu sem varað hefur verið við í mörg ár.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að málinu verði aftur vísað milli 2. og 3. umr. til atvinnuveganefndar og fengnir fleiri aðilar til að skoða þetta út frá samfélagslegum sjónarmiðum eins og Byggðastofnun, út frá notkun veiðarfæra og líka varðandi skipatækni, hvernig svona bátar eru þá varðandi sjóhæfni verandi ekki lengri en 15 metrar en mega stækka, eins og kemur fram í málinu, bara opið út í hið óendanlega. Ég held að ég vildi ekki sigla á svoleiðis bát út af Vestfjörðum.