Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[15:15]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langaði bara rétt að koma hingað upp og gera grein fyrir fyrirvara sem ég er með á málinu, en ég sit í atvinnuveganefnd og er á meirihlutaálitinu. En áður en að því kemur þá ætla ég bara að segja að mér hefur þótt þetta fín umræða hér í þingsal. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur óskað eftir að málið gangi aftur til atvinnuveganefndar á milli 2. og 3. umr. og við því verður auðvitað orðið og ég held að það sé fínt að nota það tækifæri að ræða áfram þessi stærðarmörk ef það vantar einhvern skýrleika. Það var býsna vel farið yfir þetta af hálfu nefndarinnar í meðförum málsins en það má alltaf fara vel yfir málin og ég geri sannarlega ekki lítið úr áhyggjum hv. þingmanns og vangaveltum og fagna því bara að við förum betur yfir málið.

Ég vildi hins vegar gera grein fyrir þessum fyrirvara sem ég var með við málið sem er í sjálfu sér ekki annar en sá að það vantar auðvitað innviði. Við erum á fleygiferð, sjávarútvegurinn er á fleygiferð í orkuskiptum og þar eins og í svo mörgu öðru höfum við verk að vinna þegar kemur að innviðauppbyggingu og það að hafa hvata til orkuskipta í þessum tegundum í krókaaflamarkskerfinu án þess endilega að hafa á sama tíma innviði í höfnunum tilbúna veldur ákveðinni misskiptingu. Það kemur vissulega fram í áliti meiri hlutans og sprettur af þessari umræðu sem átti sér stað í nefndinni um akkúrat þessi mál, að þetta sé „aðeins eitt skref af þeim mörgu grænu skrefum sem þarf að stíga til að ná markmiðum um orkuskipti í sjávarútvegi“, svo að ég lesi upp úr álitinu. Það eru vissulega fleiri mál til umræðu innan nefndarinnar sem tengjast þessu en það er mjög mikilvægt að alltaf þegar við ræðum þessi mál þá minnum við líka á það að þessa innviðauppbyggingu þarf að fara út í. Þar er líka brýn spurning: Hver ber kostnaðinn af þeirri uppbyggingu? Hvernig skiptist hann? Þá getum við farið um víðan völl og það á sannarlega ekki bara við um sjávarútveginn þó að við tölum um hafnirnar, það eru skemmtiferðaskipin og aðrir slíkir þættir þannig að þetta er alveg risamál. Ég tel bara óvarlegt annað en að nefna þetta, minna á þetta atriði í hvert skipti sem við ræðum þessi mál vegna þess að eins jákvæð og orkuskiptin eru þá er lykilatriði að við séum ekki bara að vinna að þeim í orði heldur séum við raunverulega að vinna að þeim og þá er það innviðauppbyggingin sem allt veltur á. Það var fyrirvari minn við þetta mál. Þetta var töluvert rætt í nefndinni og ég get alveg tekið undir að það er gott og það er rétt að þetta er eitt skref af mörgum en þau verða heldur ekkert fleiri endilega — eða við skulum öllu heldur segja að sú vegferð sem farin er með þessu skrefi leiðir ekki til neins nema innviðauppbyggingin sé í lagi. En kannski ræðum við þetta líka eitthvað meira í meðförum nefndarinnar af því að málið er sem sagt á leiðinni inn aftur.