Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):

Virðulegi forseti. Nú erum við komin í annað frumvarpið sem tengist orkuskiptum sem hæstv. matvælaráðherra hefur lagt fram. Þetta er kannski eitt það hættulegasta af frumvörpunum því að hér er verið að fórna líffræðilegum fjölbreytileika og umhverfinu á kostnað loftslags. Af hverju segi ég þetta? Jú, það er að sjálfsögðu gott að stærri skrúfur dragi úr orkunotkun skipanna en það þarf að passa að það sem fengið er út úr því að draga það saman komi ekki í bakið á okkur á annan máta. Það sem ég á einna helst við þar eru tveir hlutir, annar sem við fjöllum um í nefndarálitinu en hitt sem við gátum ekki fengið viðhlítandi svör við frá ráðuneytinu og Hafrannsóknastofnun. Það er nefnilega þannig að koltvísýringur er bundinn í hafinu að miklu leyti. Við óskuðum eftir upplýsingum um hvaða áhrif það hefði að vera með stærri skrúfu hvað varðar þá hreyfingu sem þá kemst á hafið og mögulega losun við það en engin gögn fengust um það. Það sem hins vegar er mikilvægt og kom fram í umræðu okkar við ráðuneytið og aðra er að með því að stækka skrúfurnar — það er í rauninni það sem þetta gengur allt út á, aflvísirinn er enn eitt íslenska fyrirbærið sem einhver fann upp, að margfalda einhverja hluti með stærð skrúfunnar, en hér er hreinlega verið að tala um að stækka skrúfur — færðu meiri toggetu og þar af leiðandi geturðu t.d. dregið tvö troll í stað eins. Þetta staðfesti ráðuneytisfólk við okkur. Það að geta dregið tvö troll en ekki eitt gerir það að verkum að meira kolefni losnar úr sjónum og áhrifin á hafsbotninn aukast, til að mynda á þau setlög sem þar eru.

Það er þessi aukna losun á kolefni í sjónum og þessi áhrif á hafsbotninn sem við teljum að hafi mögulega alvarleg áhrif á lífríkið og þann fjölbreytileika sem þar er, lífríki sem þegar er viðkvæmt fyrir öllu raski. Það er því mjög ófyrirséð hvaða áhrif þetta mun hafa. Vitað er að notkun trolls og dragnótar getur valdið auðn á miðum nærri landi, t.d. virðast hrygningarstofnar þorsks ekki hafa borið þess bætur síðastliðin 40 ár. Eins og kom fram hjá framsögumanni meiri hluta þá erum við að horfa til þess að vernda fleiri hafsvæði. Við verðum að passa að vernda ekki eitt hafsvæði en algjörlega eyðileggja önnur. Það er mikilvægt að í aðgerðum fyrir loftslagið séum við að passa að þær séu ekki á kostnað þess líffræðilega fjölbreytileika og lífríkis hafsins sem er á þessum stöðum. Ég tala nú ekki um ef — hvað kallaði ég það áðan? — lífsferilskostnaðargreining, þ.e. kolefnisgreiningin öll, sýnir okkur að það sem við erum að spara í að brenna dísil í skipinu ofan á hafinu er að losa meiri koltvísýring úr hafsbotninum og hafinu sjálfu. Þetta erum við ekki búin að rannsaka, þetta erum við ekki búin að gera. Samt ætlum við að leyfa þessar breytingar.